Enski boltinn

Van Gaal um Solskjær: Hann leggur rútunni eins Mourinho en vinnur leiki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Louis van Gaal kvaddi sem bikarmeistari.
Louis van Gaal kvaddi sem bikarmeistari. vísir/getty
Louis van Gaal, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, lætur vaða í allar áttir í áhugaverðu og skemmtilegu viðtali við breska ríkisútvarpið þar sem hann er mikið spurður út í daga sína hjá Manchester United og viðskilnaðinn við félagið.

Hann fer í viðtalinu yfir leikmannakaupin sín sem þóttu ekki merkileg en Hollendingurinn skýtur svo fast á Ole Gunnar Solskjær sem kom með gleðina aftur á Old Trafford og fór að vinna leiki eftir þunglyndið í kringum José Mourinho.

Van Gaal getur ekki verið ósammála því að Solskjær sé búinn að bæta andrúmsloftið á Old Trafford en hann gefur lítið fyrir þær hugmyndir um að Norðmaðurinn sé að láta United spila fallegan fótbolta eins og liðið spilaði undir stjórn Sir Alex Ferguson.

„Fólk heldur að falsfréttir séu eitthvað sem fylgdi Donald Trump. Við höfum verið með falsfréttir í fótboltanum í 50 ár,“ segir Van Gaal sem var rekinn eftir að verða bikarmeistari með United og við tók José Mourinho.

„Þjálfarinn sem kom á eftir mér [Mourinho] breytti leikaðferð liðsins þannig að hann fór að leggja rútunni og spila skyndisóknarfótbolta. Nú er kominn nýr þjálfari sem að leggur rútunni og spilar skyndisóknarfótbolta. Eini munurinn á Mourinho og Solskjær er að Solskjær vinnur leiki.“

„Ég er ekki á staðnum en það virðist vera að Solskjær sé búinn að bæta andrúmsloftið og það er satt að Solskjær er búinn að breyta hlutverki Pauls Pogba þannig að hann er mikilvægari fyrir liðið,“ segir Van Gaal.

Hollendingurinn telur sinn fótbolta hafa verið mun fallegri en undir hans stjórn hélt liðið boltanum lengi þó það hafi oft verið gagnrýnt fyrir að láta svo aldrei til skarar skríða.

„Manchester United er ekki að spila Ferguson-bolta. Þetta er varnarsinnaður fótbolti sem byggist á skyndisóknum. Ef ykkur líkar þessi fótbolti þá er það bara þannig. Ef ykkur finnst þetta meira spennandi en minn leiðinlegi sóknarfótbolti þá verður bara að hafa það en ég er ósammála,“ segir Louis van Gaal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×