Ljóst er að hundruð þúsunda eru saman komin í göngunni sem fer gegnum miðborg Lundúna og endar við þinghúsið. Óstaðfestar fregnir herma að yfir milljón sé saman komin á mótmælunum, en það er svipaður fjöldi og kom saman í miðborginni árið 2003 til þess að mótmæla Íraksstríðinu.
Mótmælin koma í kjölfar samnings milli Bretlands og ESB um að fresta fyrirhugaðri útgöngu Breta úr sambandinu, sem upphaflega var fyrirhugað að ætti sér stað næsta föstudag, 29. mars.
Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, var mættur í mótmælagönguna og tísti stuttu myndbandi af sér þar sem hann hélt uppi borða með slagorði mótmælanna.
„Hér í Lundúnum eru þúsundir fólks úr borginni okkar og hvaðanæva af landinu saman komið til þess að senda skýr skilaboð: Nú er nóg komið. Það er kominn tími til að leyfa breskum almenningi að eiga lokaorðið um Brexit.“
Undirskriftasöfnun á vefsíðu breska þingsins þar sem kallað er eftir því að hætt verði við Brexit hefur fengið byr undir báða vængi en þegar þetta er skrifað hafa 4,3 milljónir skrifað undir hana og er það mesti fjöldi sem sett hefur nafn sitt undirskriftasöfnun á vefsíðu þingsins.
Upphafskona söfnunarinnar, Margaret Georgiadou segist hafa fengið líflátshótanir símleiðis og holskeflu af hatursskilaboðum á Facebook vegna undirskriftasöfnunarinnar.

Verði samningur Theresu May forsætisráðherra við Evrópusambandið ekki samþykktur af breska þinginu, er Bretum gert að yfirgefa Evrópusambandið þann 12. apríl næstkomandi, aðeins tveimur vikum síðar en ráðgert hefur verið til þessa. Fari svo gæti verið að Bretland yfirgefi sambandið án nokkurs samnings.

Forsætisráðherraskrifstofan að Downing-stræti 10 hefur hafnað fullyrðingum sem koma fram í umfjöllun the Times, þar sem fram kemur að þegar sé búið að leggja drög að tímaáætlun er snýr að afsögn May.