Erlent

Notuðu teppi til að grípa þriggja ára dreng sem féll niður sex hæðir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Barnið slapp ómeitt frá fallinu.
Barnið slapp ómeitt frá fallinu. Skjáskot
Hópur manna bjargaði þriggja ára kínverskum dreng sem hékk fram af svölum á sjöttu hæð í íbúðarblokk í kínversku borginni Chongqing í gær. Þegar drengurinn missti takið féll hann á teppi sem vegfarendur héldu á milli sín fyrir neðan svalirnar.

Á myndbandi sem birt er á vef BBC og sjá má hér að neðan, sést hvernig drengurinn heldur í svalirnar áður en hann dettur niður í átt að jörðu. Zhu Yanhui, starfsmaður í íbúðarhúsnæðinu segist í viðtali við BBC hafa tekið eftir að drengurinn hafi hangið fram af svölunum.

„Ég hugsaði með mér að ég þyrfti að hlaupa þangað og reyna að grípa hann með berum höndum en það hefði líklega ekki tekist,“ sagði Zhu. Starfsmenn og íbúar söfnuðust saman og náðu sér í stórt teppi í von um að grípa mætti drenginn.

Í viðtali við BBC segir Zhu að þau hafi verið efins um að teppið myndi duga til að draga úr fallinu en þau hafi engu að síður látið reyna á það enda lítill tími til stefnu. Skömmu eftir að teppinu var komið fyrir missti drengurinn takið og féll niður á teppið.

Í frétt BBC segir að farið hafi verið með drenginn á sjúkrahús þar sem í ljós kom að hann hafi sloppið ómeiddur frá fallinu. Lögreglan í Chongqing segir að hann hafi verið í umsjá ömmu sinnar sem skildi drenginn eftir einan í íbúðinni á meðan hún fór í matvörubúð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×