Atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytið hefur birt í samráðsgáttinni frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli og lögum um dýrasjúkdóma. Kveðið er á um afnám núverandi leyfisveitingakerfis vegna innflutnings á ákveðnum landbúnaðarafurðum innan EES. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytinu.
Sjá nánar: Innflutningsbann á fersku kjöti samræmist ekki EES-samningnum
Samhliða frumvarpinu hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnt aðgerðaráætlun til að bregðast við áhrifum dóma EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar Íslands vegna skilyrða fyrir innflutning á tilteknum landbúnaðarafurðum.
Bregðast við tveimur dómum
Aðgerðaráætluninni og frumvarpinu er ætlað að bregðast við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands frá 11. október 2008 og EFTA-dómstólsins frá 14. nóvember 2017 þess efnis að núverandi leyfisveitingakerfi, við innflutning á kjöti og eggjum og krafa um frystingu kjöts, brjóti í bága við skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum.Leyfisveitingakerfið felur í sér að óheimilt sé að flytja inn kjöt og egg til landsins nema með sérstakri heimild Matvælastofnunar og vottorð um að vörurnar hafi verið geymdar við að minnsta kosti -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu.
Árið 2007 tóku íslensk stjórnvöld ákvörðun um að heimila innflutninga á ófrystu kjöti og afnema þannig leyfisveitingakerfið með það fyrir augum að tryggja stöðu Íslands á hinum ábatasama innri markaði evrópska efnahagssvæðisins. Ákvörðunin var staðfest á Alþingi árið 2009.
Þrátt fyrir ákvörðunina var lögum landsins ekki breytt til samræmis við þessar skuldbindingar gagnvart EES en EFTA-dómstóllinn og Hæstiréttur staðfestu að því að stjórnvöld hefðu með þessu brotið gegn skuldbindingum sínum. Skaðabótaskylda íslenska ríkisins hefur verið staðfest.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að þrátt fyrir að það sé mikilvægt að virða skuldbindingarnar megi ekki bjóða hættunni heim með óvarkárni í tengslum við breytingarnar en tekið er fram að enginn afsláttur verði gefinn af eftirliti heldur skuli öryggi matvæla og dýraheilbrigði vera áfram í öndvegi.
Umsagnarfrestur er til 6. mars næstkomandi.
