Karlmaður sem handtekinn var á Burger King við Ráhústorgið í Kaupmannahöfn á laugardaginn grunaður um að hafa stungið mann fyrir utan bar á Strikinu síðasta laugardag, nálægt kirkjunni Helligåndskirken, er Hollendingur.
Íslenskir miðlar fjölluðu um málið í gær og vísuðu í frétt Ekstrabladet þar sem fram kom að um stórvaxinn húðflúraðan Íslending væri að ræða. Greindi sjónarvottur frá því að hinn meinti Íslendingur hefði átt í slagsmálum við fórnarlambið áður en hann stakk manninn í hálsinn með hníf meðan hann lá á jörðu niðri.
Troels Jensen, fjölmiðlafulltrúi lögreglunnar í Kaupmannahöfn, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis að hinn grunaði í málinu sé Hollendingur.
Ekstrabladet hefur eftir lögreglunni í Kaupmannahöfn á laugardag að fórnarlambið væri komið úr lífshættu og hlyti aðhlynningu á Rigshospitalet. Var það þá mat lögreglu að um væri að ræða einangrað atvik milli tengdra manna.
Erlent