Erlent

Tvær flugvélar rákust saman á Schiphol-flugvelli

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mynd af vélunum tveimur eftir að þær rákust hvor á aðra.
Mynd af vélunum tveimur eftir að þær rákust hvor á aðra. Twitter
Tvær flugvélar lentu í árekstri á flugbraut Schiphol-flugvallar í Amsterdam, höfuðborg Hollands, í dag. Áreksturinn hefur valdið töfum á flugumferð frá vellinum.

Önnur vélin er af gerðinni Airbus A320 og flýgur undir merkjum lággjaldaflugfélagsins easyJet, á meðan hin er Boeing 737-800 og tilheyrir KLM, ríkisflugfélagi Hollands. Vélarnar voru báðar að bakka frá brottfararhliðum vallarins þegar þær rákust hvor á aðra.

Myndir teknar af farþegum vélanna virðast þá sýna að vængur easyJet-vélarinnar hafi verið kyrfilega fastur í jafnvægisútbúnaði á stéli hinnar hollensku.





Farþegi um borð í easyJet vélinni sagði í samtali við PA að við áreksturinn hafi skapast örlítill hristingur, en engin meiðsl hafi orðið á fólki.

Farþegar vélarinnar þurftu þá að bíða í á aðra klukkustund meðan unnið var að því að leysa málið. Farþegum KLM vélarinnar var hins vegar fljótt og örugglega komið um borð í aðra vél og héldu í ferð sína til Madríd.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×