Löndin tvö krefja önnur Evrópuríki um að taka á móti fleira flóttafólki sem kemur yfir hafið. Leikarinn, sem er orðinn 69 ára gamall, ræddi við nokkra flóttamenn, sem flúðu frá Líbíu um borð í smyglbátum sem ekki voru sjófærir, áður en þeim var bjargað. Á meðal flóttafólksins var ungur maður og kornabarn hans.
Gere hefur lengi verið virkur í mannréttindabaráttu og hefur reglulega verið tekið virkan þátt í loftslagsaðgerðum og stutt rannsóknir á eyðni. Hann hefur verið gerður útlægur frá Kína vegna baráttu sinnar í þágu mannréttinda í Tíbet.
Hann var fyrir tilviljun á Ítalíu í vikunni þegar hann sá fréttir um vandræði bátsins, setti sig í samband við spænsku góðgerðasamtökin Open Arms og spurði þau hvað hann gæti gert. Þetta sagði talskona samtakanna í samtali við fréttastofu AP.
Tveimur dögum síðar var Gere mættur til Lampedusa og aðstoðaði við að flytja birgðir um borð í skipið.
„Það mikilvægasta fyrir þetta fólk er að komast að opinni höfn, komast af bátnum og í land og hefja nýtt líf,“ sagði Gere og hvatti alþjóðasamfélagið að „vinsamlegast styðja okkur hérna á Open Arms og hjálpa þessu fólki, bræðrum okkar og systrum.“
Önnur Evrópulönd hafa enn ekki svarað beiðni hjálparsamtakanna um að hleypa skipinu í höfn.
Alþjóðaflóttamannastofnunin segir 39,289 flóttamenn hafa komið til Evrópu sjóleiðis það sem af er ári sem er um 34 prósentustigum minna en á sama tíma árið 2018. Þar kemur einnig fram að 840 manns hafi látið lífið á leiðinni frá Norður Afríku til Evrópu sjóleiðis í ár.