Forsætisráðherra hefur skipað Gunnar Jakobsson lögfræðing í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika til fimm ára. Skipunartíminn er fimm ár en Gunnar tekur ekki við embættinu fyrr en 1. mars árið 2020 sökum skuldbindinga í núverandi starfi.
Gunnar lauk cand.jur. prófi frá Háskóla Íslands árið 1995 og MBA námi frá Yale-háskóla árið 2001. Hann hóf störf hjá fjárfestingabankanum Goldman Sachs & Co. sumarið 2000 í New York og fluttist síðan til London árið 2018 þar sem hann starfar enn sem framkvæmdastjóri lausafjárssviðs og persónuverndar fyrir Goldman Sachs International.
Sjá einnig: Framkvæmdastjóri hjá Goldman Sachs tilnefndur í embætti varaseðlabankastjóra
Embættið var auglýst til umsóknar þann 3. október síðastliðinn og bárust tíu umsóknir. Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka.
Gunnar var valinn á grundvelli niðurstöðu lögbundinnar hæfnisnefndar og að fenginni tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra. Hæfnisnefndin mat fimm umsækjendur mjög vel hæfa til að gegna embættinu, þau Guðrúnu Johnsen, Gunnar Jakobsson, Jón Þór Sturluson, Tómas Brynjólfsson og Yngva Örn Kristinsson.
Vegna skuldbindinga Gunnars í núverandi starfi hefur forsætisráðherra, að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðherra, falið Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra að gegna störfum varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika samhliða starfi sínu sem seðlabankastjóri frá 1. janúar.
Gunnar Jakobsson skipaður varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika

Tengdar fréttir

Seðlabankinn verður á tveimur stöðum eftir sameiningu
Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið sameinast undir einum hatti Seðlabankans þann 1. janúar næstkomandi en frumvarp þess efnis var samþykkt á Alþingi í gær. Sameinuð stofnun mun lúta stjórn seðlabankastjóra og þriggja varaseðlabankastjóra sem stýra ólíkum stoðum bankans.

Framkvæmdastjóri hjá Goldman Sachs tilnefndur í embætti varaseðlabankastjóra
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur tilnefnt Gunnar Jakobsson í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika. Forsætisráðherra skipar í embættið.