Enski boltinn

Solskjær ekki með samning við Molde

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ole Gunnar Solskjær stefnir aftur til Noregs ef hann fær ekki starfið hjá United.
Ole Gunnar Solskjær stefnir aftur til Noregs ef hann fær ekki starfið hjá United. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, bráðabirgðastjóri Manchester United, viðurkennir að hann viti ekki alveg hvort hann sé með samning hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Molde en hann stefnir að því að stýra því áfram ef hann fær ekki starfið hjá United.

Solskjær á enn þá eftir að tapa leik í deild eða bikar með United og er með liðið í baráttu um Meistaradeildarsæti og enska bikarinn en PSG er eina liðið sem er búið að leggja United að velli.

United mætir Frakklandsmeisturunum einmitt í kvöld í seinni leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar þar sem að PSG hefur 2-0 forskot eftir fyrri leikinn á Old Trafford.

Fyrst þegar að Solskjær mætti til starfa var talað um að hann væri á láni frá Molde en nú er búið að taka frétt um að hann hafi skrifað undir nýjan þriggja ára samning við norska félagið af heimasíðu þess.

„Ég veit ekki alveg hvernig þetta virkar,“ segir Solskjær í hlaðvarpinu Fotbalklubben en á Twitter-síðu hans segist hann enn þá vera stjóri Molde.

„Ég held að samningurinn minn hjá Molde sé runninn út og nú er ég bara samningsbundinn Manchester United. Kannski þarf ég annan samning til þess að snúa aftur til Molde. Við sjáum til hvað gerist en ég stefni að því að fara aftur þangað,“ segir Ole Gunnar.

Í frétt Sky Sports um málið segir að þjálfarar mega bara vera með samning við eitt félag í einu sama hvort þeir séu mættir til að stoppa stutt eins og Solskjær ætlaði sér upphaflega að gera hjá United.

Manchester United er búið að spila 16 leiki undir stjórn Solskjær og vinna þrettán þeirra, gera tvö jafntefli og tapa aðeins einum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×