Erlent

Einn æðsti leið­togi al-Qa­eda drepinn í að­gerðum Banda­ríkjanna og Afgan­istan

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Asim Umar var að sögn drepinn í aðgerðum bandarískra og afganskra hersveita í síðasta mánuði.
Asim Umar var að sögn drepinn í aðgerðum bandarískra og afganskra hersveita í síðasta mánuði. getty/Scott Nelson/twitter/NDS
Einn æðsti leiðtogi al-Qaeda var drepinn í sameiginlegri hernaðaraðgerð Afganistan og Bandaríkjanna í síðasta mánuði. Þetta segir í tilkynningu frá leyniþjónustu Afganistan (NDS).

Asim Umar, æðsti leiðtogi al-Qaeda í suð-vestur Asíu (AQIS) var drepinn þegar hersveitir Afganistan og Bandaríkjanna réðust inn í búðir Talíbana í Helmand héraðinu þann 23. september síðastliðinn.

Minnst fjörutíu almennir borgarar dóu í sömu árásinni.

Hvorki Bandaríkin né al-Qaeda hafa staðfest andlát Umar.

NDS sagði frá árásinni á Twitter á þriðjudag og sagði árásina hafa verið gerða í samstarfi við Bandaríkin en bæði Umar og aðrir meðlimir AQIS hafi verið í felum í búðunum.



Þá sagði í yfirlýsingunni að sex aðrir meðlimir AQIS hafi verið drepnir og hafi flestir þeirra verið Pakistanar. Abu Raihan, sem sagður er hafa verið tengiliður Umar við Ayman al-Zawahiri, leiðtoga al-Qaeda, er einn þeirra sem er sagður hafa dáið.

NDS birti einnig myndir af Uma, bæði lifandi og dánum, með tilkynningunni.

Engar frekari upplýsingar um árásina hafa verið birtar og enn hefur ekki verið greint frá því hvað varð um líkin eftir árásina.

Það að háttsettur leiðtogi í al-Qaeda hafi verið í búðum Talíbana hefur vakið upp spurningar hvort Talíbönum sé alvara að vera tilbúnir að hætta samskiptum við jíhadista, en Talíbanar eru í friðarviðræðum við Bandaríkin.

Friðarviðræðurnar milli Talíbana og Bandaríkjanna virtust ganga vel þar til Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sleit viðræðum í síðasta mánuði. Ef samkomulagið hefði verið samþykkt hefðu bandarískar hersveitir yfirgefið Afganistan en í staðin áttu Talíbanar að hætta öllum samskiptum við al-Qaeda.

Talíbanar hafa háð blóðuga baráttu gegn afgönsku ríkisstjórninni og erlendum hersveitum síðan 2001 og stjórna Talíbanar nú hluta landsins.

Bandaríkin hófu stríð í Afganistan eftir hryðjuverkaárásina sem gerð var á tvíburaturnana þann 9. september árið 2001 vegna þess að Talíbanar, sem stjórnuðu landinu þá, neituðu að framselja þáverandi leiðtoga al-Qaeda, Osama Bin Laden.

Yfirvöld í Helmand hafa staðfest að margir almennir borgarar hafi dáið í árásinni en þeir hafi verið viðstaddir brúðkaupi á svæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Bandaríkjunum er verið að rannsaka dauðsföll almennu borgaranna. Þeir hafa þá ýjað að því að flestir almennra borgara hafi látist í öðrum sprengingum eða þegar sjálfsmorðssprengjumenn hlupu inn í mannfjöldann.

Bæði bandarískar- og afganskar hersveitir hafa sakað Talíbana um að nota almenna borgara sem skildi.

Umar hefur verið leiðtogi AQIS síðan í september 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×