Samgönguráðherra og ferðamálaráðherra hafa undirritað viljayfirlýsingu um frekari uppbyggingu á Akureyrarflugvelli. Aðgerðarhópur hefur verið stofnaður sem á að vinna tillögur að uppbyggingu.
Heimamenn hafa lengi barist fyrir því að flugvöllurinn verði endurbættur með millilandaflug í huga. Ágætlega hefur gengið að markaðssetja flugvöllinn en erfiðlega hefur gengið að fá fjármagn til uppbyggingar.
Nú virðist ætla að verða breyting á því en sérstökum aðgerðahópi hefur verið falið að gera tillögur um uppbyggingu. Þingmaðurinn Njáll Trausti Friðbertsson á sæti aðgerðahópnum, segir hlutverk hópsins skýrt.
„Í raun að horfa til þess hvað hægt er að gera á næstu mánuðum og misserum í að byggja upp og styrkja Akureyrarflugvöll í þessu hlutverki að vera önnur gátt inn í landið,“ segir Njáll Trausti.
Samkvæmt drögum að samgönguáætlun næstu fimm ára er aðeins gert ráð fyrir 78 milljóna króna framlagi til Akureyrarflugvallar, aðallega til viðhalds. Þetta hafa hagsmunaaðilar á Norðurlandi gagnrýnt. Njáll Trausti vonast til þess að vinna hópsins, sem mun aðallega snúast um hvernig bæta megi flugstöðina, geti skilað sér inn í samgönguáætlun á næsta ári.
„Með þessum aðgerðarhóp þá lít ég svo á að við séum að móta tillögur varðandi Akureyrarflugvöll og þá þessa gátt sem við myndum nýta okkur inn í samgönguáætlunina sem verður klár í þinginu um það bil í mars,“ segir Njáll Trausti.
Ráðherra talaði um að það þyrfti að vinna þessu vinna hratt, er það það sem mun gerast?
„Það er það sem mun gerast og ég myndi gjarnan vilja sjá tillögur frá hópnum ekki seinna en í seinnihluta febrúar þannig að
umhverfis- og samgöngunefnd geti unnið þetta með samgönguáætlun.“