Handbolti

Aron hefur verið meistari samfellt í 2927 daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson í leik með Barcelona en hann hefur orðið spænskur meistari þrjú ár í röð með félaginu.
Aron Pálmarsson í leik með Barcelona en hann hefur orðið spænskur meistari þrjú ár í röð með félaginu. Getty/Oscar J. Barroso

Aron Pálmarsson varð landsmeistari níunda árið í röð í gærkvöldi þegar Barcelona liðið var krýndur spænskur meistari í handbolta.

Spænska handboltasambandið tók þá ákvörðun að flauta tímabilið af vegna baráttunnar við kórónuveiruna og efsta liðið var krýndur meistari eins og gert var bæði í Frakklandi og Þýskalandi.

Aron og félagar í Barcelona liðinu höfðu unnið alla nítján leiki sína í spænsku deildinni og var með fimm stiga forskot á Ademar Leon þegar keppni var hætt. Það átti eftir að spila ellefu umferðir.

Aron hefur nú verið samfellt landsmeistari frá því að hann vann þýsku deildina með Kiel vorið 2012. Síðan þá hefur hann unnið þrjá þýska titla til viðbótar, tvo ungverska titla með Veszprém og svo þrjá spænska titla með Barcelona.

Þetta þýðir að Aron hefur verið landsmeistari samfellt í 2927 daga eða síðan Kiel tryggði sér 2011-12 titilinn 1. maí 2012. Þessi titill þýðir líka að hann fer yfir 3000 daga sem meistari í sumar.

Aron Pálmarsson hefur alls unnið tíu landstitla á ellefu tímabilum sínum í atvinnumennsku en hann missti einungis af landstitli vorið 2011.

Níu meistaratímabil Arons Pálmarssonar í röð:

  • 2010 Þýskur meistari með Kiel (Vann líka Meistaradeild)
  • 2011 Ekki þýskur meistari með Kiel en bikarmeistari
  • 2012 Þýskur meistari með Kiel (Líka bikarmeistari og vann Meistaradeild)
  • 2013 Þýskur meistari með Kiel (Líka bikarmeistari)
  • 2014 Þýskur meistari með Kiel
  • 2015 Þýskur meistari með Kiel
  • 2016 Ungverskur meistari með Veszprém (Líka bikarmeistari)
  • 2017 Ungverskur meistari með Veszprém (Líka bikarmeistari)
  • 2018 Spænskur meistari með Barcelona (Líka bikarmeistari)
  • 2019 Spænskur meistari með Barcelona (Líka bikarmeistari)
  • 2020 Spænskur meistari með Barcelona (Líka bikarmeistari)
  • 10 landsmeistarartitlar

  • 8 bikarmeistaratitlar
  • 2 Meistaradeildartitlar
  • Samtals: 20 stórir titlar á ellefu tímabilum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×