Erlent

Sprengjubelti flugræningjans reyndist ekki ekta

Atli Ísleifsson skrifar
Gíslatökumaðurinn yfirgaf flugvélina skömmu fyrir hádegi og var handtekinn skömmu síðar.
Gíslatökumaðurinn yfirgaf flugvélina skömmu fyrir hádegi og var handtekinn skömmu síðar. Vísir/AFP
Flugmálayfirvöld í Egyptalandi hafa greint frá því að sprengjubelti mannsins sem rændi vél EgyptAir í morgun og hélt fjölda manns í gíslingu á flugvelli á Kýpur, hafi ekki reynst ekta.

Talsmaður lögreglu á Kýpur hefur einnig greint frá því að engin sprengiefni hafi fundist við leit um borð í vélinni.

Allir gíslarnir sluppu lifandi og var flugræninginn handtekinn skömmu fyrir hádegi að íslenskum tíma, en þá voru um sex klukkustundir liðnar frá því að vélinni var flogið till Larnaca-flugvallar á Kýpur, á leið sinni milli Alexandríu og Kaíró.

Vélin er af gerðinni Airbus A320 og voru 55 farþegar um borð í vélinni, MS181, auk áhafnar. Flestum var sleppt fljótlega eftir að vélinni var lent.

Ibrahim Mahlab, forsætisráðherra Egyptalands, segir flugræningjann, sem er egypskur, meðal annars hafa krafist þess að ræða við fulltrúa ESB og að honum yrði flogið á aðra flugvelli. Hann er sagður eiga við andleg veikindi að stríða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×