Erlent

Hundruð þúsunda mótmæla

Hundruð þúsunda mótmæla enn kosningasvikum í Úkraínu. Þing landsins kom saman til neyðarfundar í dag til að ræða vandann, og mótmælendurnir óttast aðgerðir öryggissveita. Tugir þúsunda stuðningsmanna stjórnarandstöðuframbjóðandans Viktors Yuschenkos létu frostkalda nóttina ekki stöðva sig og héldu áfram mótmælum á aðaltorginu í Kænugarði. Þegar leið á daginn fjölgaði í hópnum og á annað hundrað þúsund manns gengu fylktu liði að þinghúsinu þar sem þingmenn sátu á neyðarfundi. Þeir ræddu þar umdeild úrslit kosninga, mótmæli almennings og viðbrögð Vesturlanda, en talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins hnykkti á afstöðu þarlendra stjórnvalda í gærkvöldi. Hann sagði að Úkraínumenn væru hvattir til að reka af sér slyðruorðið og sína svo ekki verði um villst að lýðræði sé í hávegum haft í landinu. Þingmenn lýstu áhyggjur af ástandinu en þingið hefur ekki vald til að hafa nein áhrif á kosningarnar. Mótmæli fóru einnig fram í öðrum borgum í landinu. Rússar hafa hins vegar lýst yfir stuðningi við forsætisráðherra landsins og sigurvegara forsetakosninganna samkvæmt niðurstöðum kjörnefndar: Viktor Yanukovich. Ríkisfjölmiðlar hafa í dag borið á hann lof og fagnað meintum sigri hans, en þeir hafa verið gagnrýndir fyrir að ganga erinda Yanukovish í kosningabaráttunni. Fréttaskýrendur segja átök frambjóðendanna og stuðningsmanna þeirra um leið átök tveggja þjóðfélagshópa: Annars vegar iðnaðarsvæða í rússneskumælandi austurhluta landsins, þar sem stuðningur við Yanukovich er mikill, og hins vegar vesturhlutans, þar sem þjóðernissinnar eru í meirihluta, en þeir styðja Yuschencko.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×