Erlent

Töldu sig hafa fundið sprengju í bandaríska þinghúsinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þinghúsið, Capitol Hill, var rýmt og aðliggjandi götum lokað.
Þinghúsið, Capitol Hill, var rýmt og aðliggjandi götum lokað. Twitter
Þinghúsið í Washington var rýmt í dag, annan daginn í röð, eftir að öryggisverðir fundu grunsamlegan böggul við gestamóttöku hússins.

Lögreglan í borginni staðfesti að verið væri að rannsaka málið en vildi ekki tjá sig frekar um málið. 

Vitni segir í samtali við Reuters-fréttastofuna að sprengjuleitardeild lögreglunnar hafi farið fyrir aðgerðunum.

Uppfært kl. 13:30:

Öryggisverðir hússins segjast í tölvupósti til starfsmanna hafa leitað af sér allan grun og að enga sprengju hafi verið að finna í pakkanum. Svæðið verði opnað á ný innan skamms.

Fréttir voru fluttar af því í gær að skothvellir hafi heyrst í gestamóttöku þinghússins og var starfsfólki og þingmönnum á staðnum skipað að koma sér í öruggt skjól og halda sig innandyra.

Síðar kom í ljós að maður á sjötugsaldri hafði dregið upp skotvopn en að lögreglumenn hafi skotið á hann áður en honum tókst að hleypa af skoti. Maðurinn var fluttur á bráðamóttöku og er ástand mannsins að sögn erlendra miðla stöðugt.

Hér að neðan má sjá myndband frá sjónarvotti af rýmingunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×