Erlent

Að meðaltali 30 morð á dag

Birta Björnsdóttir skrifar
Lögreglan í Ohio leitar nú þeirrra sem taldir eru bera ábyrgð á dauða átta einstaklinga sem fundust látnir á heimilum sínum í bænum Piketon suður af Columbus í gær. Ekki er vitað hvort árásarmaðurinn var einn eða hvort þeir voru fleiri. Hin látnu tengjast öll fjölskylduböndum.

„Við getum staðfest að við höfum fundið lík af átta manneskjum. Sjö þeirra eru fullorðnir einstaklingar en einn sextán ára unglingur," sagði Charles Reader, lögreglumaður í Pike-sýslu í Ohio við blaðamenn fyrr í dag.

„Öll fórnarlömbin voru tekin af lífi. Þau voru öll skotin í höfuðið," sagði Mike Dewine, saksóknari í Ohio-sýslu.

Meðal hinna látnu var móðir fjögurra daga gamals barns, sem sakaði ekki. Lögreglustjórinn í Piketon sagðist ekki telja að hætta steðjaði að almenningi, málið væri bundið við þessa tilteknu fjölskyldu. 

Þá fann lögreglan í Georgíu í morgun lík manns sem talinn er bera ábyrgð á dauða fimm einstaklinga sem skotnir voru til bana í gær. Árásirnar voru tvær talsins í bænum Appling, austan við Atlanta. Ekki hafa enn verið borin kennsl á hin látnu en talið að morðin tengist fjölskylduerjum.

Það sem af er ári hafa 3,976 manns verið skotnir til bana í Bandaríkjunum, þar af hefur 161 barn undir 12 ára aldri slasast eða látið lífið í skotárásum.

Skotvopn koma við sögu í að meðaltali 92 dauðsföllum í Bandaríkjunum á dag, þar af eru að meðaltali 30 morð og 58 sjálfsvíg á degi hverjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×