Erlent

Vilja aðstoða þolendur kynferðisofbeldis

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Bente Stein Mathisen, þingmaður norska hægriflokksins og formaður norrænu velferðarnefndarinnar.
Bente Stein Mathisen, þingmaður norska hægriflokksins og formaður norrænu velferðarnefndarinnar. Mynd/MagnusFröderberg
Ósk Norðurlandaráðs um stofnun norræns samstarfsnets fyrir fullorðna einstaklinga sem glíma við síðbúnar afleiðingar kynferðisofbeldis hefur hlotið hljómgrunn.

„Heilbrigðisyfirvöld huga ekki nógu vel að einstaklingum sem glíma við síðbúnar afleiðingar kynferðisofbeldis. Þetta eru nú einu sinni fimm til tíu prósent allra Norðurlandabúa,“ segir Bente Stein Mathisen, þingmaður norska Hægriflokksins og formaður norrænu velferðarnefndarinnar. En kynferðisofbeldi í barnæsku hefur oft og tíðum alvarlegar og margvíslegar afleiðingar á fullorðinsárum.

Stein Mathisen sagðist jafnframt ánægð með að heilbrigðis- og félagsmálaráðherrarnir ætli að ræða við einstaklinga úr hópi sjálfboðaliða sem og opinbera og einkageiranum um að koma á fót norrænu samstarfsneti.

Einnig sagði hún samhæfðra aðgerða þörf. „Það vantar samhæfðar aðgerðir á þessu sviði, bæði landsbundnar og alþjóðlegar. Myndun samstarfsnets hefur norrænt notagildi og skilar samlegðaráhrifum milli rannsókna, frumkvöðlastarfs, opinbera geirans og frjálsra félagasamtaka sem gagnast löndunum. Við höfum mörg dæmi um góðan árangur, en það vantar vettvang til að geta skipst á reynslu.“

Auk tilmæla um samstarfsnet með áherslu á fullorðna sem glíma við síðbúnar afleiðingar kynferðislegs ofbeldis beinir Norðurlandaráð einnig tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að hún þrói menntunaráætlanir sem sniðnar eru að ólíkum starfsstéttum sem vinna með börn og ungmenni sem orðið hafa fyrir slíku ofbeldi og einnig fullorðna sem glíma við síðbúnar afleiðingar þess. Eins að rannsóknir norrænna stofnana verði efldar til að tryggja að pólitískar ákvarðanir byggi á þekkingu á öllum sviðum meðferðar. Að tekin verði saman skýrsla um Grønlandsmodellen – Rejseholdet þar sem greint verður frá aðdraganda verkefnisins og starfsaðferðum og aðgerðum lýst og að Norræna ráðherranefndin bæti vandanum vegna ofbeldis gagnvart börnum og fullorðnum við verksvið Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar og við gerð áætlunar á heilbrigðis- og félagsmálasviði á Norðurlöndum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. apríl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×