Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði tvö mörk í 5-2 sigri Avaldsnes á Sandviken í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Hólmfríður og Þórunn Helga Jónsdóttir voru báðar í byrjunarliði Avaldsnes og sú fyrrnefnda kom liðinu yfir strax á 6. mínútu. Hólmfríður skoraði svo sitt annað mark á 54. mínútu þegar hún kom Avaldsnes í 4-0.
Hólmfríður er komin með þrjú mörk á tímabilinu en Avaldsnes er í 4. sæti deildarinnar með níu stig.
Guðmunda Brynja Óladóttir lék allan leikinn fyrir Klepp sem tapaði 0-2 fyrir Kolbotn á heimavelli. Jón Páll Pálmason er þjálfari Klepp sem situr í 9. sæti deildarinnar með þrjú stig.
Í sænsku úrvalsdeildinni steinlá Kristianstad fyrir Linköping á heimavelli, 1-4.
Stelpurnar hennar Elísabetar Gunnarsdóttur byrjuðu leikinn afar illa og eftir 19 mínútur var staðan orðin 0-3, Linköping í vil.
Sif Atladóttir lék allan leikinn fyrir Kristianstad sem er án stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar.
Þá lék Anna Björk Kristjánsdóttir allan leikinn í vörn Örebro sem gerði markalaust jafntefli við Kopparbergs/Göteborg á útivelli.

