Innlent

Ætla að breyta lögum um hlutabótaleið til að hindra misnotkun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Lögum varðandi svokallaða hlutabótaleið stjórnvalda verður breytt til þess að koma í veg fyrir að stöndug fyrirtæki nýti sér hana til að greiða niður laun starfsmanna. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í samtali við fréttastofu RÚV.

Greint hefur verið frá því að fyrirtækin Össur, Hagar og Skeljungur hafi öll nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda á meðan þau greiddu eigendum sínum út arð eða keyptu eigin bréf.

ASÍ sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í gær eftir að tíðindi bárust af arðgreiðslu til handa eigendum Össurar á sama tíma og 165 starfsmenn fyrirtækisins eru á hlutabótaleiðinni. Sagði í ályktun miðstjórnar ASÍ að þetta væri „ósiðlegt og ætti með réttu að vera ólöglegt.“

„Það var auðvitað alveg ljóst þegar þessu fyrirkomulagi var komið á í miklum hraði að það var fyrst og fremst hugsað til að tryggja lífsafkomu fólks og viðhalda ráðningasambandi,“ segir Katrín í samtali við Ríkisútvarpið.

Stjórnvöld hafi ákveðið að hafa úrræðið opið svo engar hindranir væru sem kæmu í veg fyrir það markmið.

„Að sjálfsögðu þá var ekki ætlunin sú að stöndug fyrirtæki væru að nýta sér þetta neyðarúrræði til að greiða niður laun sinna starfsmanna,“ segir hún.

Að sögn Katrínar verður hlutabótaleiðin framlengd með lagabreytingu.

„Og þá munu verða sett inn skilyrði sem hafa verið í öðrum aðgerðum stjórnvalda til að mynda hvað varðar arðgreiðslur og kaup í eigin bréfum og fleira,“ segir forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×