Innlent

Vísar „samsæriskenningum“ á bug

Í kvöld verður aðalfundur í Framsóknarfélagi Reykjavíkurkjördæmis suður og búist er við átökum um kjör í stjórn. Talið er að Björn Ingi Hrafnsson reyni að styrkja stöðu sína innan félagsins á fundinum og reyni að koma sínu fólki að í stjórn. Björn Ingi segir þó sáttatillögu liggja fyrir fundinum og reynt verði að freista þess að koma í veg fyrir átök. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að Björn Ingi hafi staðið fyrir umfangsmikilli smölun inn í félagið fyrir fundinn í kvöld, stækkað félagið úr um 800 félögum upp í tæplega þúsund.  Hingað til hefur verið gert ráð fyrir því að Framsóknarmenn velji sína frambjóðendur til borgarstjórnarkosninganna í vor í prófkjöri en heimildamenn fréttastofu telja að nú geti allt eins verið að Björn Ingi og hans stuðningsmenn stilli sjálfum sér upp á lista.  Nokkurrar óánægju virðist gæta innan flokksins með þessa framgöngu. Björn Ingi segir sjálfur að hann sé endreginn stuðningsmaður þess að listi framsóknarmann verði valinn í prófkjöri og vísar því sem hann kallar „samsæriskenningar“ um annað alfarið á bug.  Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi hefur gefið það út að hún hyggist sækjast eftir því að leiða listann og Alfreð Þorsteinsson, núverandi oddviti gaf hið sama út í lok sumars og segir það enn standa. Hann segist búast við því að valið verði á listann í „tiltölulega opnu prófkjöri“. Anna segist enn stefna ótrauð á forystusætið. Ef að líkum lætur gætu því þrír sóst eftir forystusætinu hjá Framsókn í borginni í vor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×