Innlent

Létta ábyrgðinni af fjölskyldum geðsjúkra

Eva Bjarnadóttir skrifar
Mismunandi verklag við framkvæmd nauðungarvistana hefur skapast á Landspítalanum og Sjúkrahúsi Akureyrar.
Mismunandi verklag við framkvæmd nauðungarvistana hefur skapast á Landspítalanum og Sjúkrahúsi Akureyrar. Fréttablaðið/Vilhelm
Fagfólk og aðstandendur fólks sem er nauðungarvistað á sjúkrahúsi vegna geðsjúkdóma gagnrýna að aðstandendur þurfi að skrifa undir beiðni um nauðungarvistun og segja það skaða samskipti innan fjölskyldna.

Mismunandi verklag við framkvæmd nauðungarvistana hefur skapast á Landspítalanum og Sjúkrahúsi Akureyrar, en á Akureyri sér félagsþjónustan um slíkar beiðnir.

„Ef okkur sýnist heppilegt að sveitarfélagið létti þessu af fjölskyldunni er engin tregða hjá félagsþjónustunni hér norðan- og austanlands,“ staðfestir Sigmundur Sigfússon, forstöðulæknir geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri. Hann segir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu síður hafa viljað taka að sér þetta hlutverk.

„Ég veit ekki af hverju. Þetta er svo viðkvæmt að svipta einhvern í fjölskyldunni frelsi, að það kemur sér vel ef sveitarfélögin vilja taka það að sér,“ segir Sigmundur.

Á Akureyri er jafnframt reynt að komast hjá því að leggja fólk inn í svokallaða 48 klukkustunda vistun, sem krefst hvorki samþykkis aðstandenda né sveitarfélags. „Við viljum að málið sé rannsakað svo vel að pappírarnir ráðuneytinu séu tilbúnir áður en sjúklingur er lagður inn.“

Tómas Zoëga, yfirlæknir á geðsviði Landspítalans, segir velferðarsvið Reykjavíkur skrifa oftar undir nauðungarvistanir en áður. „En frumkvæðið kemur venjulega frá aðstandendum,“ segir Tómas. Hann segir erfitt að sjá að fækkun 48 klukkustunda nauðungarvistana gæti gengið upp í Reykjavík.

„Yfirsýnin er meiri í minni sveitarfélögum. Hér getur fólk komið inn fárveikt og án þess að hafa fengið þjónustu áður. Þá höfum 48 klukkustundir til að meta stöðuna,“ bendir Tómas á, en hann segir erfitt að meta fárveikt fólk utan stofnana.

Nánar verður fjallað um málið í greinarflokki Fréttablaðsins næstu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×