Körfubolti

Daníel áfram með karlalið Grindavíkur en Jóhann hættur með kvennaliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daníel Guðni Guðmundsson verður áfram með Grindavík þrátt fyrir að félagið hafi reynt að fá annan þjálfara.
Daníel Guðni Guðmundsson verður áfram með Grindavík þrátt fyrir að félagið hafi reynt að fá annan þjálfara. vísir/bára

Daníel Guðni Guðmundsson verður áfram þjálfari karlaliðs Grindavíkur í körfubolta. Jóhann Árni Ólafsson er hins vegar hættur sem þjálfari kvennaliðsins. Þetta staðfesti Ingibergur Þ. Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, í samtali við Vísi.

Að sögn Ingibergs ræddu Grindvíkingar við Finn Frey Stefánsson um að taka við starfi þjálfara karlaliðsins og yfirþjálfara yngri flokka. Hann gaf þeim hins vegar afsvar og tók við karlaliði Vals.

„Við reyndum þetta fyrir ári síðan en þá var yfirþjálfarastaðan ekki laus. Hún var laus núna þannig að við ætluðum að fá hann í þennan heildarpakka. Við hefðum aldrei farið í hann bara sem meistaraflokksþjálfara eða bara yfirþjálfara,“ sagði Ingibergur.

Daníel verður því áfram með Grindavík. Hann tók liðinu fyrir síðasta tímabil og á tvö ár eftir af samningi sínum við félagið. 

Grindvíkingar voru í 8. sæti Domino's deildar karla þegar keppni var hætt vegna kórónuveirufaraldursins. Þá komst liðið í bikarúrslit þar sem það tapaði fyrir Stjörnunni.

Jóhann Árni Ólafsson er hættur með kvennalið Grindavíkur eftir tveggja ára starf.vísir/daníel

Jóhann verður ekki áfram með kvennaliðið sem féll úr Domino's deild kvenna í vetur. Hann stýrði Grindavík upp úr 1. deildinni á sínu fyrsta tímabili með liðið.

Grindvíkingar eru því í leit að þjálfara fyrir kvennaliðið og yfirþjálfara yngri flokka.


Tengdar fréttir

Ræddu við Finn með Daníel á samning: „Getur sært stoltið“

Daníel Guðni Guðmundsson segist vera með þriggja ára samning við Grindavík sem þjálfari liðsins í Dominos-deild karla og á hann því tvö ár eftir af samningi sínum. Hann segir þó að það sé stjórnarfundur á morgun þar sem línurnar vonandi skýrast.

Finnur Freyr tekur við Val

Fimmfaldi Íslandsmeistarinn Finnur Freyr Stefánsson verður næsti þjálfari karlaliðs Vals í körfubolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×