Lífið

Verksmiðjuganga á Gleráreyrum

Fimmtudagskvöldið 13. júlí kl 20:00 býður Iðnaðarsafnið á Akureyri til gönguferðar umhverfis verksmiðjusvæðið á Gleráreyrum á Akureyri. Í haust verða þær byggingar sem þar standa fjarlægðar og því fer hver að verða síðastur að ganga þarna um þetta mikla iðnaðarsvæði.

Þorsteinn E. Arnórsson úr stjórn Iðnaðarsafnsins á Akureyri sér um leiðsögnina. Lagt verður af stað frá bílastæðinu sunnan við Glerártorg og þátttaka í göngunni er ókeypis. Fyrrum starfsmenn verksmiðjanna eru sérstaklega velkomnir og mega gjarnan leggja orð í belg. Í gönguferðinni verður saga þessa merka svæðis rifjuð upp, en þarna hófst vélvæðing í iðnaði á Akureyri um aldarmótin 1900. Þarna voru margir vinnustaðir sem tengdust iðnaði s.s. Gefjun ( sængurfatagerðin), Ylrún, Skógerðin Iðunn, Sútunarverksmiðja Iðunnar, Fataverksmiðjan Hekla, Silkiverksmiðja sambandsins, Öl og gos, Dúkaverksmiðjan og Ullarþvottastöðin.

Verksmiðjurnar voru í marga áratugi fjölmennasti vinnustaður á Akureyri og dæmi eru um að menn ynnu þar næstum alla sína starfsævi. Iðnaðarsafnið geymir minjar um starfsemi verksmiðjanna sem tekist hefur að bjarga og því tilvalið að undirbúa sig fyrir gönguna eða kalla fram raunverulegri myndir með því að heimsækja safnið sem er opið alla daga frá 13-17.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.