Ítarlega er fjallað um málið á vef Daily Mail, þar sem meðal annars er rætt við Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, en hann er faðir Snæfríðar sem lést árið 2013.
Málið má rekja til þess að Giuggioli og Brancaccia virðast hafa átt í stuttu sambandi á árunum 2015 og 2016 er Firth og eiginkona hans gengu í gegnum erfiðleika í hjónabandinu.

Í samtali við Daily Mail þvertekur Brancaccia fyrir að hafa sýnt af sér ógnandi hegðun í garð Giuggioli. Segir hann að þau hafi orðið ástfangin og ferðast saman um heiminn, meðal annars til Íslands.
Hann vill þó ekki gefa upp hvernig sambandið endaði en í frétt Daily Mail segir að ljóst sé að Giuggioli hafi bundið enda á það. Hann segir ásakanir þeirra á hendur sér hafa komið til vegna þess að hjónin óttist að ímynd þeirra sem „hin fullkomnu hjón“ gæti beðið hnekki.
Sett í samhengi við forræðisdeilu Snæfríðar og Brancaccia
Lögregla rannsakar nú ásakanirnar á hendur Brancaccia en í frétt Daily Mail er málið sett í samhengi við forræðisdeilur Snæfríðar og ítalska blaðamannsins árið 2003 og 2004.
Forræðisdeila þeirra fór fyrir íslenska dómstóla en árið 2004 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að dóttir Snæfríðar og hans yrði á Íslandi með móður sinni.
Líkt og fyrr segir er rætt við Jón Baldvin Hannibalsson í frétt Daily Mail þar sem hann segir að Snæfríður hafi óttast Brancaccia.
„Þau bjuggu saman í Mexíkó og hún flúði vegna þess að hann hótaði málsókn,“ segir Jón Baldvin. „Það er ekkert leyndarmál að dóttir mín sakaði hann um ofbeldi.“
Í frétt Daily Mail segir einnig að lögfræðingar Brancaccia og hjónanna vinni nú að því að komast að samkomulagi í málinu, en yfirvöld á Ítalíu fara með rannsókn þess.