Erlent

Allir frambjóðendurnir með sama nafn

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá Rúmeníu.
Frá Rúmeníu. Vísir/AFP
Kjósendur í komandi bæjarstjórnarkosningum í rúmenska bænum Draguseni gætu fengið mjög ruglingslegan atkvæðaseðil í hendurnar á morgun. Þannig er mál með vexti að allir þrír sem bjóða sig fram til bæjarstjóra bera sama nafn.

Rúmenski miðillinn Jurnajul greinir frá og breska ríkisútvarpið fjallar einnig um málið. Sitjandi bæjarstjóri, Vasile Cepoi, sækist eftir sínu fjórða kjörtímabili en mótframbjóðendur hans tveir, Vasile Cepoi og Vasile Cepoi, bjóða sig báðir fram í fyrsta sinn.

Mennirnir þrír eru ekki skyldir en eftirnafn þeirra ku vera algengt á svæðinu. Þó telur bæjarstjórinn að þetta sé ekki bara stórmerkileg tilviljun, heldur kosningabrella. Nafnar hans bjóða sig fram fyrir hægrisinnaða flokka en hann er sjálfur vinstri-miðjumaður.

„Mig grunaði að flokkarnir myndu gera þetta,“ segir Cepoi bæjarstjóri og grípur til myndlíkingar úr spænska boltanum. „Þegar Messi spilar í fótbolta, spilar allt hitt liðið saman gegn honum. Þeir eru að gera það gegn mér. Ég er Messi þessara bæjarstjórnarkosninga.“

Hinir tveir neita því að brögð séu í tafli. Bæjarstjórinn er þó eldri en tvívetur í þessum efnum og hefur þegar gripið til ráðstafana. Nefnilega að bæta viðurnefni sínu, Lica, við nafn sitt á kjörseðlinum.

Hvernig sem fer, er allavega hægt að slá því föstu að Vasile Cepoi verður sigurvegari kosninganna á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×