Erlent

Pompeo beðinn um að aflýsa för sinni til Norður-Kóreu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Mike Pompeo og Kim Jong-un.
Mike Pompeo og Kim Jong-un. Vísir/EPA
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur beðið Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um að fara ekki til Norður-Kóreu í næstu viku eins og til stóð.

Ástæðan fyrir því að Trump fer fram á þetta er sú að hann segir að ekki nægilegur árangur hafi náðst í viðræðum um kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu.

Trump gerði grein fyrir ákvörðun sinni á Twitter:

„Ég hef beðið utanríkisráðherrann, Mike Pompeo, um að fara ekki til Norður-Kóreu á þessum tímapunkti vegna þess að mér finnst við ekki hafa náð nægilega góðum árangri í viðræðum um kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaga.“

Trump bætir við að hann telji að harðari afstaða Bandaríkjanna gangvart Kína í viðskipta- og tollamálum sé ein af ástæðunum fyrir því að viðkvæm staða sé uppi í viðræðum um kjarnorkuafvopnun.

Hann segir að Pompeo muni fara til Norður-Kóreu áður en langt um líður. Norður-Kóreuferð utanríkisráðherrans yrði þó að öllum líkindum ekki fyrr en eftir að búið er að bæta viðskiptasamband Bandaríkjanna og Kína.

„Í millitíðinni vil ég senda Kim hlýjar kveðjur,“ segir Trump sem bætir við að hann hlakki til að fara á fund einræðisherrans á ný.

Trump var verulega ánægður með leiðtogafundinn í Norður-Kóreu sem var haldinn 12. júní en hann sagði að fundurinn hefði borið mikinn árangur. Það kveður því við nýjan tón í orðræðu forsetans í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×