Þýska félagið PCC hefur tilkynnt að lokaákvörðun um kísilver á Bakka frestist fram yfir áramót. Ráðamenn á Húsavík segja enn stefnt að því að 80 milljarða króna framkvæmdir í Þingeyjarsýslum fari á fullt í vetur.
Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá hvernig kísilverksmiðjan á Bakka muni líta út fullbyggð, samkvæmt grafískum myndum frá PCC, en byggingarnar eiga að rísa tvo kílómetra frá útjaðri byggðarinnar á Húsavík. Ráðamenn PCC höfðu stefnt á lokaákvörðun um verkefnið nú í desember en þeir hafa nú tilkynnt um seinkun sökum þess að fjármögnun verkefnisins hafi tafist.
Sendinefnd þýska fyrirtækisins hélt af landi brott í dag eftir að hafa fundað með ráðamönnum á Húsavík fyrr í vikunni. Fyrir hópnum fór Sabine König, framkvæmdastjóri Bakka Silicon, en með í för voru einnig fulltrúar tveggja þýskra verktakafyrirtækja og verkfræðistofunnar Eflu, að því er þingeyski fréttamiðillinn 640.is greindi frá.
Kristján Þór Magnússon, bæjarstjóri Norðurþings, segir í samtali við Stöð 2 að PCC stefni nú að lokaákvörðun í janúar eða byrjun febrúar. Framkvæmdir færu þá þegar af stað. Sameiginlegt markmið hópsins sé að klára þetta sem fyrst svo hægt sé að hefjast handa strax í febrúar.
Undirbúningsframkvæmdir á vegum Landsvirkjunar hófust raunar á Þeistareykjum í sumar við 90 megavatta jarðvarmavirkjun en áætlað er að stóriðjuframkvæmdirnar kalli á 80 milljarða króna fjárfestingar í Þingeyjarsýslum; í verksmiðju, orkumannvirkjum og innviðum, og allt að 700 manns vinni við uppbygginguna, þegar mest verður á næstu þremur árum. Um 150 framtíðarstörf verða síðan í kísilverinu.

