Innlent

Refsing fyrir mansal verði 12 ár

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ögmundur Jónasson leggur frumvarpið fram.
Ögmundur Jónasson leggur frumvarpið fram.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mælir í dag fyrir frumvarpi þess efnis að refsing fyrir mansal á Íslandi verði allt að 12 ára fangelsi í stað átta ára.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að þann 16. júní í fyrra hafi menn í fyrsta skipti verið fundnir sekir um hlutdeild í mansalsbroti. Um var að ræpa brot gegn 19 ára stúlku sem beitt hafði verið ólögmætri nauðung og annarri ótilhlýðilegri meðferð í heimalandi sínu áður en hún kom til Íslands. Talið var sannað að mennirnir hefðu hver með sínum hætti átt hlut í því að flytja stúlkuna hingað til lands eða á milli staða hérlendis og hýsa hana á ákveðnu tímabili. Var jafnframt talið sannað að stúlkan hefði verið flutt hingað til lands til að stunda vændi.

Þar sem ekkert lá fyrir til sönnunar á því hvort mennirnir hefðu framið verknaðinn í eigin þágu, frekar en sem hlutdeildarmenn í broti annars manns, eins eða fleiri, sem ekki hefði orðið uppvíst um, voru þeir dæmdir sekir fyrir hlutdeild í mansalsbroti. Sá mannanna sem ríkastan þátt var talinn eiga í brotinu var dæmdur til fimm ára fangelsisrefsingar en hinir til fjögurra ára fangelsisrefsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×