Erlent

Skjálftinn á Spáni fjarri íslendingabyggð

Óli Tynes skrifar
Lorca í gærkvöldi.
Lorca í gærkvöldi.
Átta manns létu lífið og um 15 þúsund misstu heimili sín í bænum Lorca á suðaustur Spáni þegar jarðskjálfti að styrkleika 5,2 á Richterskala reið þar yfir í gær. Um 86 þúsund íbúar eru í bænum. Hátt á annaðhundrað slösuðust. Hersveit var send til bæjarins til þess að veita aðstoð og girða af byggingar sem hætta er á að hrynji.  Ótti ríkti meðal íbúanna og þúsundir þeirra höfðust við utan dyra í nótt. Nokkrir eftirskjálftar urðu en allir frekar veikir og ollu ekki meira tjóni.



Sigurður Þ. Ragnarsson jarðvísindamaður er formaður Félags húseigenda á Spáni. Hann sagði í samtali við fréttastofuna að hann hefði verið í sambandi við fjölmarga Íslendinga sem staddir eru ytra núna og hefði ekki frétt af neinum sem hefði orðið fyrir skakkaföllum. Skjálftinn var á litlu dýpi eða tíu kílómetrum og skemmdir takmarkaðar við um 7 kílómetra radíus. Það er fjarri allri íslenskri byggð.



Sigurður sagði að íslendingar sem hann talaði við hefðu ekki einusinni fundið fyrir skjálftanum. Byggingarnar sem hefðu hrunið í Lorca væri flestar gömul hús sem ekki væru járnbundin eins og skilyrt er í dag.



Margt fólk sem er á leið til Spánar hefur haft samband við Sigurð og spurt hvort einhver frekari hætta væri á ferðum. Hann sagði ekkert benda til þess að svo væri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×