Innlent

Börnin fengu sippubönd og sundkort frá ÍBR

Mynd úr safni / Vilhelm
Af gömlum og góðum íslenskum sið fagnar Íþróttabandalag Reykjavíkur sumarkomunni og gefur börnum í grunnskólum Reykjavíkur sumargjafir. Sumargjafaverkefnið hófst árið 2005 þegar nemendur í 2.bekk fengu sippuband. Það hefur síðan verið endurtekið ár hvert og hafa þrír árgangar bæst við í hóp þeirra sem fá gjafir frá Íþróttabandalaginu.  

Börn í öðrum bekk fengu sippuband ásamt litlum bæklingi með hugmyndum af leikjum og æfingum. Allir þriðju bekkir fengu þrjá bolta til að nota í frímínútum. Þá fengu fimmtu bekkingar sundkort sem gildir í þrjú skipti í sundlaugar Reykjavíkur ásamt bækling með hugmyndum að sundleikjum og upplýsingum um opnunartíma sundlauganna í Reykjavík.

Tilgangur sumargjafanna er að gleðja reykvísk börn og um leið hvetja þau til að hreyfa sig og leika sér með tilvísun í íþróttir almennt. Starfsmenn og nemendur skólanna taka ávalt vel á móti gjöfunum og eru þakklát fyrir framtakið eins og sjá má í pósti frá einum skólastjóranum: „Kærar þakkir frá okkur. Gjafirnar eru vorboðar eins og lóan."

Alls fengu 1350 börn sippubönd, 1438 börn sundkort og 74 bekkjadeildir (1343 nemendur) bolta frá ÍBR þetta árið. Sumargjöfunum var dreift til skólanna í byrjun maí.  4.bekkingar fengu líka gjöf á þessu skólaári því í tengslum við fyrsta vetrardag í október síðastliðnum voru þeim afhendir boðsmiðar á skauta, samtals 1.365 nemendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×