Innlent

Tók þingheim í kennslustund um notkun handspritts

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, ítrekaði mikilvægi hreinlætis og handþvottar í pontu Alþingis í dag.
Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, ítrekaði mikilvægi hreinlætis og handþvottar í pontu Alþingis í dag. Vísir/Vilhelm

„Þetta tók samtals tólf sekúndur,“ sagði Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, um leið og hann hafði lokið sér af við að maka handspritti á hendur sínar í pontu Alþingis í dag. Ólafur Þór, sem er öldrunarlæknir og starfaði áður sem slíkur, nýtti tækifærið undir liðnum um störf þingsins við upphaf þingfundar í dag til að ítreka mikilvægi handþvottar og þess að gæta að hreinlæti nú þegar kórónuveirufaraldur herjar á heimsbyggðina.

„Þessi sjálfsagða aðgerð sem heilbrigðisyfirvöld og sóttvarnalæknir og fleiri eru búnir að leggja til við okkur að við förum öll í, gerum sem oftast, tekur samtals tólf sekúndur af okkar tíma,“ sagði Ólafur Þór um leið og hann benti á að sprittbrúsa væri að finna út um allt þinghúsið og víða úti í samfélaginu. Með því að vera dugleg að nota spritt og huga vel að handþvotti séum við ekki aðeins að verja okkur sjálf heldur einnig þá sem viðkvæmari eru fyrir.

Þá þakkaði hann viðbragðsaðilum, sóttvarnalækni, heilbrigðiskerfinu öllu og almenningi í landinu fyrir viðbrögð þeirra við sjálfsögðum leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda.

„Við erum að berjast við faraldur á heimsvísu sem hefur dánartíðni einhvers staðar á bilinu 0,5% til 8%. Ef þið haldið ágætu háttvirtu þingmenn að átta prósentin séu frá einhverri þróunarlandi er svo ekki. 8% dánartíðnin er í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hálfa prósentið er í Suður-Kóreu,“ sagði Ólafur Þór. „Umfram allt, förum eftir leiðbeiningum, sprittum okkur því þetta er verkefni sem við verðum að leysa saman.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×