Fótbolti

Heimir: Skrifað í skýin að Ísland og Noregur mætist í næstu undankeppni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, vissi ekki af því að Lars Lagerbäck, hans gamli samstarfsmaður hjá íslenska liðinu, var að fara að taka við Noregi eins og raunin er.

Lars, sem hætti að þjálfa Ísland eftir Evrópumótið síðasta sumar, gerði þriggja ára samning við norska sambandið. Hann hefur undanfarna mánuði starfað sem ráðgjafi sænska landsliðsins.

Sjá einnig:Twitter um Lars og nýja starfið: „Eins og þegar kærastan dömpar þér og hoppar beint í fangið á öðrum

„Ég vissi ekki af þessu en þetta kom mér ekki á óvart. Ég vissi að honum fannst gaman að vera með sænska liðinu og hann var búinn að fá þá afslöppun sem hann þurfti og þá hvíld sem hann þurfti,“ segir Heimir í samtali við Vísi.

Lars sagði frá ákvörðun sinni að hann myndi ekki endurnýja samning sinn við KSÍ á blaðamannafundi í Laugardalnum 9. maí í fyrra. Hann sagðist þá vera of gamall og hann vildi fara að eyða meiri tíma með fjölskyldunni.

„Ég get svo sem ekkert sagt um þetta. Þetta er bara hans útgáfa og hans ástæða fyir því að hætta. Ég hef ekkert út á það að setja. Ég er bara mest svekktur yfir því að hann gat ekki haldið áfram lengur með okkur,“ segir Heimir.

Noregur er í svipaðri stöðu og íslenska landsliðið þegar Lars tók við því árið 2011. Þá var Ísland í sögulegri lægð eins og Noregur núna en Norðamenn eru í 84. sæti heimslistans, tveimur sætum á eftir Færeyjum og aðeins með þrjú stig í undankeppni HM 2018.

Sjá einnig:Lars: Fyrst Ísland gat þetta þá getur Noregur það | Myndband

„Þetta er spennandi verkefni. Ég segi það kannski óábyrgt því ég veit ekki hvernig staðan er innan norska sambandsins en Norðmenn líta út fyrir að eiga meira inni. Það er megn óánægja með gengi liðsins. Ef einhver getur lagað gengi Noregs er það Lars. Við óskum honum bara velfarnaðar í þessu starfi,“ segir Heimir, en verður ekki sérstök stund ef þeir mætast á fótboltavellinum sem þjálfarar sitthvors liðsins?

„Við Helgi [Kolviðsson, aðstoðarþjálfari Íslands] vorum einmitt að tala um það, að það er núna skrifað í skýin að Ísland og Noregur mætist í undankeppni Evrópumótsins,“ segir Heimir Hallgrímsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×