Enski boltinn

Gylfi: Frábært fyrir gamlan United stuðningsmann að skora sigurmark á Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var hetja Swansea City í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi þegar hann skoraði sigurmarkið í leik á móti Liverpool á Anfield.

Heimir Karlsson og Gunnlaugur Helgason ræddu við Gylfa í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Hann var alltaf inni. Ég var ekki að fara að klúðra þessu,“ sagði Gylfi um það þegar hann sá boltann rúlla til síns. Gylfi skoraði markið á 74. mínútu en Swansea hafði áður misst niður 2-0 forystu.

„Það var frábært fyrir gamlan Manchester United stuðningsmann að skora sigurmark á Anfield. Það skemmdi heldur ekki fyrir að við þurftum virkilega á öllum þremur stigunum að halda. Þetta var mjög gott, “ sagði Gylfi sem hefur ekkert falið leynt með það að hann hélt með Manchester United á sínum yngri árum.





Þetta er búið að vera mjög erfitt tímabil hjá velska liðinu sem hefur sitið í fallsæti stærsta hluta tímabilsins.

„Ég lýg því ekkert að þetta er búið að vera mjög erfitt og mjög langur vegur. Það er búið að ganga illa og félagið er búið að skipta um tvo stjóra, “ sagði Gylfi.

„Þegar maður er að fara í gegnum tímabil þegar það er erfitt að fá sigra þá fer maður að hugsa hvenær við komum til með að vinna leiki. Það var því gríðarlega mikilvægt að vinna Crystal Palace tvisvar sinnum yfir jóla og áramót, “ sagði Gylfi.

„Svo kemur þessi sigur á móti Liverpool sem gefur liðinu sjálfstraust,“ segir Gylfi en sigurmarkið hans kom upp fyrir Crystal Palace, Hull og Sunderland og þar með upp úr fallsæti.

Gylfi hefur skorað 6 mörk og gefið 6 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Gylfi hefur átt þátt í marki í síðustu fjórum sigurleikjum og alls skoraði 3 mörk og gefið 3 stoðsendingar í þeim.

„Við áttum frábæran leik á móti Liverpool og þá sérstaklega í varnarleiknum. Þeir voru kannski ekki upp á sitt besta en að geta þetta á útivelli sýnir það að við eigum möguleika í þessi lið í kringum okkur og þá sérstaklega á heimavelli, “ sagði Gylfi.

Tom Carroll fagnar Gylfa eftir markið.Vísir/Getty
„Ef við spilum áfram þennan fótbolta sem við vorum að gera á móti Liverpool og Crystal Palace þá ættum við að geta safnað nóg af stigum til þess að halda okkur í deildinni,“ sagði Gylfi en kom ekki til greina hjá honum að fara fram Swansea í janúarglugganum.

„Ekki hjá mér persónulega. Ég veit alveg af því að það hefur verið mikið fjallað um það og verið að skrifa um hitt og þetta.  Ég er bara ánægður hér og búinn að koma mér vel fyrir hjá Swansea. Ég er að spila alla leiki og er því ekkert að hlaupa í burtu,“ sagði Gylfi.

„Ég hef sagt það í fullt af viðtölum að ég vil ekki falla úr deildinni. Ég er því með hundrað prósent einbeitingu á þetta tímabil hjá Swansea. Ég ætla að reyna að hjálpa liðinu að halda sér í deildinni,“ sagði Gylfi.

Það er hægt að heyra allt viðtalið við Gylfa í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Keown: Sigurðsson er frábær leikmaður

Arsenal-goðsögnin Martin Keown hrósaði Gylfa Þór Sigurðsson í Match of the Day þættinum á BBC og segir Swansea eiga möguleika á að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×