Fótbolti

44 ára markvörður kom Egyptum í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Egyptaland komst í kvöld í úrslitaleikinn í Afríkukeppninni eftir sigur á Búrkína Fasó í vítakeppni.

Essam El Hadary, 44 ára markvörður Egypta, var hetja liðsins þegar hann varði vítaspyrnu frá Bertrand Traore og tryggði sínu liði 4-3 sigur í vítakeppninni.  El Hadary, sem var að spila sinn 150. Landsleik varði tvær síðustu vítaspyrnurnar frá lánlausum leikmönnum Búrkína Fasó.

Mohamed Sala kom Egyptum í 1-0 á 66. mínútu en Aristide Bance jafnaði metinn fyrir Búrkína Fasó og varð um leið fyrstur til að skora hjá Egyptum í keppninni. Búrkína Fasó var betra liðið í leiknum en náði ekki að nýta sér það.

Hvorugu liðinu tókst að skora fleiri mörk í venjulegum leiktíma og það var enn jafnt eftir framlenginguna.

Vítakeppnin byrjaði vel fyrir Búrkína Fasó þegar hinn tvítugi markvörður Herve Koffi varði fyrstu spyrnu Egypta frá Abdallah El Said.

Herve Koffi breyttist úr hetju í skúrk þegar hann klúðraði fjórðu vítaspyrnu síns liðs. Reynsluboltinn Essam El Hadary sá við honum og varði síðan líka síðustu spyrnuna frá Bertrand Traore.

Egyptar skoruðu úr fjórum síðustu vítaspyrnum sínum en þeir Ramadan Sobh, Ahmed Hegazy, Mohamed Salah og Amr Warda nýttu allir sínar vítaspyrnur.

Þetta verður fyrsti úrslitaleikur Egypta í keppninni síðan að þeir unnu hana síðast árið 2010. Í úrslitaleiknum mæta þeir annaðhvort Kamerún eða Gana sem mætast á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×