Enski boltinn

Gylfi Þór og Adam Lallana í sérflokki þegar kemur að því að búa til mörk

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sigurmark Swansea þegar liðið lagði Southampton, 2-1, í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi en með sigri komst liðið upp úr fallsæti. Hafnfirðingurinn lagði einnig upp fyrra mark liðsins fyrir Alfie Mawson en Gylfi Þór er nú búinn að skora sjö mörk og leggja upp önnur sjö í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Íslenski landsliðsmaðurinn er búinn að koma með beinum hætti að fjórtán mörkum Swansea af 28 í ensku úrvalsdeildinni eða 50 prósent marka liðsins. Erfitt er að sjá hvað það myndi gera án hans.

Eini maðurinn með eins tölfræði og Gylfi Þór er enski landsliðsmaðurinn Adam Lallana, leikmaður Liverpool. Hann er búinn að skora sjö mörk og leggja upp sjö fyrir sitt lið og koma að fjórtán af 52 mörkum Liverpool.

Gylfi Þór og Lallana eru þeir tveir miðjumenn í ensku úrvalsdeildinni sem hafa skapað flest mörk fyrir sín lið með því að skora eða leggja upp en næstir koma Tottenham-mennirnir Christian Eriksen og Dele Alli sem hafa báðir skapað þrettán mörk fyrir Spurs.

Óhætt er að segja að Gylfi Þór hefur mun meira vægi fyrir sitt lið en hinir þrír þar sem Lallana hefur komið að 27 prósent marka Liverpool og hinir tveir 31 prósent marka Tottenham hvor um sig.

Gylfi er í 5.-6. sæti listans yfir stoðsendingahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar ásamt Adam Lallana. Fyrir ofan þá eru Alexis Sánchez, Arsenal, Matthew Phillips, WBA, og Christian Eriksen, Tottenham, allir með átta stoðsendingar. Kevin De Bruyne, leikmaður Manchester City, trónir á toppi stoðsendingalistans með níu stykki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×