Matvælastofnun segir ekki ástæðu fyrir fólk að vera ekki með gæludýrum sínum sé fólk smitað af kórónuveirunni. Ekki hafi fengist staðfest að menn geti smitað dýr. Þá er fólk sem er í sóttkví í heimahúsi og einangrun í heimahúsi beðið um að takmarka snertingu sína við matvælaframleiðandi dýr. Þetta er meðal þess sem kemur fram á síðu MAST vegna fyrirspurna um kórónuveiruna og dýr.
Þá segir að þó veiran sé upprunnin í dýrum, líklega leðurblökum, sé hún nú aðlöguð mönnum og fyrst og fremst lýðheilsuvandamál meðal manna. Engin sjúkdómseinkenni eða útskilnaður á veirunni hafi verið lýst hjá húsdýrum eða gæludýrum.
Þá er ekki vitað hvort menn geti smitað dýr. Mælir Matvælastofnun þá að fólk þvoi sér vel um hendur eftir snertingu við dýr og komi í veg fyrir að þau sleiki fólk í andlitið. Ekki er talin mikil hætta á að dýr beri veiruna milli fólks án þess að smitast sjálft þó það sé fræðileg smitleið. Hún smitist aðallega á milli fólks.
Skoða má svör MAST við algengum spurningum um kórónuveiruna og dýrahald hér.
