Erlent

Setja krossa í opinberar byggingar til að bregðast við komu múslima

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Enginn skortur er á kristnum táknum í Bæjaralandi en þeim mun nú fjölga enn frekar
Enginn skortur er á kristnum táknum í Bæjaralandi en þeim mun nú fjölga enn frekar Vísir/Getty
Frá og með morgundeginum verða krossar hangandi uppi í öllum opinberum byggingum í þýska hluta Bæjaralands. Þá taka gildi lög sem voru sett til að bregðast við fjölgun flóttamanna á svæðinu.

Markus Söder, forsætisráðherra Bæjarlands, er einn helsti hvatamaðurinn að baki nýju lögunum. Hann segir þau einfaldlega snúast um að árétta kristin gildi og þá löngu sögu kristindóms sem hafi mótað svæðið og íbúa þess. Margir séu uggandi yfir fjölgun múslima og þeim þjóðfélagslegu breytingum sem henni kunni að fylgja og þetta sé leið til þess að undirstrika kristna menningu Bæjaralands.

Margir eru þó mótfallnir lögunum, bæði í Bæjaralandi og víðar í Þýskalandi. Kaþólska kirkjan er til að mynda andsnúin lögunum og segir þau ýta undir sundrung. Krossinn sé trúarlegt tákn sem eigi ekki að nota sem vopn í árekstrum ólíkra menningarheima. Guðfræðingar af mótmælendatrú hafa tekið í sama streng og fordæmt lögin sem misnotkun á trúartákni.

Söder, sem sjálfur er kaþólskur, segir hins vegar að krossinn verði hengdur upp í öllum opinberum byggingum sem menningarlegt tákn innfæddra Þjóðverja en ekki trúartákn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×