Erlent

Tók deyjandi lög­reglu­þjónana upp á mynd­band og gerði grín að þeim

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins í Melbourne 22. apríl síðastliðinn.
Frá vettvangi slyssins í Melbourne 22. apríl síðastliðinn. Vísir/AP

Richard Pusey, ástralskur karlmaður sem sætir nú fjölda ákæra vegna banaslyss sem varð í Melbourne í Ástralíu í síðasta mánuði, tók fjóra ástralska lögreglumenn upp á myndband þar sem þeir lágu í dauðateygjunum á slysstað og gerði grín að þeim. Þetta hafa ástralskir fjölmiðlar upp úr meðferð málsins fyrir dómstólum í dag.

Lögreglumennirnir létust allir í slysinu sem varð eftir að Pusey, sem ók Porsche-bifreið eftir hraðbraut í Melbourne, var stöðvaður vegna ofsaaksturs. Stórum vörubíl var skömmu síðar ekið á lögreglumennina, sem létust við áreksturinn. Pusey slapp hins vegar ómeiddur frá slysinu en strax var greint frá því að hann hefði birt myndir af slysstað á samfélagsmiðlum áður en hann flúði vettvang.

Pusey var bæði ákærður fyrir gáleysishegðun og að hindra framgang réttvísinnar. Þá var ökumaður vörubílsins ákærður fyrir gáleysi við akstur. Pusey var handtekinn á heimili sínu skömmu eftir slysið og hefur verið í haldi lögreglu síðan.

Richard Pusey sætir fjölda ákæra vegna aðildar sinnar að slysinu.Vísir/AP

Dómstóll tók í dag fyrir umsókn Pusey um að vera látinn laus gegn tryggingu. Enn á þó eftir að úrskurða í málinu. Fram kom í máli lögreglu fyrir réttinum að Pusey hefði myndað slysstað í rúmar þrjár mínútur og þysjað inn á tiltekin svæði. Á meðan hafi hann talað niðrandi um það sem fyrir augu bar.

Þá sýndi upptaka úr búkmyndavél Lynette Taylor, eins lögreglumannanna, þegar Pusey gerði grín að henni þar sem hún lá föst undir vörubílnum. Talið er að hún hafi þá enn verið á lífi.

Mál Pusey hefur vakið gríðarlega reiði í Ástralíu og einkum meðal lögreglu í Viktoríu-umdæmi. Lögreglumennirnir sem létust hétu, auk áðurnefndrar Taylor, Keving King, Josh Prestney og Glen Humphris. Aldrei hafa fleiri lögreglumenn látist í einu við störf sín í umdæminu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×