Niðurstöður úr prófkjöri Demókrata í Iowa fyrir bandarísku forsetakosningarnar fóru loks að berast í gærkvöldi eftir langa töf. Mjótt er á munum á milli efstu frambjóðenda. Tölur frá 71 prósenti kjörstaða hafa verið birtar og þótt of snemmt sé að lýsa yfir sigri nokkurs frambjóðanda er ljóst að fyrrverandi borgarstjórinn Pete Buttigieg og öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders komu best út.
Óvenjulegt kosningakerfi
Kosningakerfið í Iowa er þannig að fólk skiptir sér upp í hópa á kjörstað eftir því hvaða frambjóðanda það styður. Til að vinna sér inn fulltrúa þarf að fá fimmtán prósent atkvæða.
Eftir fyrstu talningu má skipta um hóp, til dæmis ef frambjóðandi naut ekki nægilegs stuðnings. Fjöldi atkvæða er svo nýttur, og staðsetning þeirra, til að reikna út svokölluð ríkisfulltrúaígildi.
Við þessi ígildi er stuðst í útreikningum á því hvað frambjóðendur hafa unnið sér inn marga fulltrúa á landsfund Demókrata. Þetta er það sem er raunverulega keppst um.

Misvægi atkvæða
Staðan í Iowa með tilliti til ríkisfulltrúaígilda samkvæmt nýjustu tölum erþannig að Buttigieg er efstur, svo Sanders. Elizabeth Warren, Joe Biden og Amy Klobuchar þar á eftir.
En ef við lítum til atkvæðafjölda er Sanders aftur á móti efstur. Þetta skýrist af misvægi atkvæða. Verði úrslitin þessi munu Buttigieg og Sanders báðir fá ellefu fulltrúa. Þeir voru því báðir hressir með niðurstöðurnar.
„Ég get stoltur sagt ykkur að í Iowa fengum við fleiri atkvæði í fyrstu og annari lotu en nokkur annar frambjóðandi,“ sagði Sanders í gærkvöldi.
„Þótt endanlegar tölur liggi ekki fyrir eru komnar niðurstöður frá meirihluta kjörstaða. Þær sýna að við erum í fyrsta sæti,“ sagði Buttigieg.

Nóg eftir
Prófkjörinu er þó hvergi nærri lokið. Á þriðjudag verður kosið í New Hampshire. Þar hefur Sanders verið að mælast með gott forskot.
22. febrúar er förinni svo heitið til Nevada þar sem kannanir sýna Biden efstan. Hann mælist einnig efstur í Suður-Karólínu en þar er kosið þann 29. febrúar.
Stærsti dagurinn í náinni framtíð er svo hinn svokallaði ofurþriðjudagur, 3. mars, þar sem kosið er í fjórtán ríkjum í einu. Eftir það verða línurnar farnar að skýrast.