Lífið

Svo látum við Grensásgaldurinn virka

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Flutningur Með samstilltum kröftum og öflugum hjálpartækjum eru hlutirnir gerðir auðveldir. Hvunndagshetjurnar eru víða.
Flutningur Með samstilltum kröftum og öflugum hjálpartækjum eru hlutirnir gerðir auðveldir. Hvunndagshetjurnar eru víða. Vísir/Ernir
„Komið bara klukkan eitt í dag,“ svarar Sigríður Guðmundsdóttir, hjúkrunarforstjóri Grensásdeildar Landspítalans, þegar ég hringi laust fyrir hádegi til þess að kanna hvort ég megi kíkja einhvern daginn með ljósmyndara og hitta starfsfólkið við vinnu sína. Þessi kona gerir greinilega ekki einfalda hluti flókna, hugsa ég, flýti mér að kanna verkefnastöðu ljósmyndaranna og hef heppnina með mér. Ernir er laus upp úr hádeginu.

Hér eru Sigríður hjúkrunarforstjóri og Páll Ingvarsson læknir. "Stillum okkur upp, systkinin,“ segir Páll sem var einu sinni spurður hvort hann væri "bróðir hennar Siggu“ af sjúklingi sem alls ekki vildi leggjast inn. "Nei, en ég get verið frekur samt!“ svaraði hann.Vísir/Ernir


Tilefni heimsóknarinnar er að starfsfólkið á endurhæfingardeildinni var valið hvunndagshetjur ársins þegar Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins voru veitt á dögunum.

Almenningur í landinu hafði sent fjölda uppástungna um það og dómnefnd blaðsins var sammála. Það var tímabært að þessi hljóði starfshópur yrði heiðraður fyrir allan þann þrótt og alla þá færni sem hann hjálpar fólki að endurheimta.

Möguleikarnir til hjálpar eru alltaf að aukast með fullkomnari tækni og árangurinn er oft ótrúlegur, segir Sigþrúður Loftsdóttir iðjuþjálfi.
Stórir sigrar unnir

Sigríður mætir okkur brosandi og býðst til að lóðsa okkur um húsið. Í iðjuþjálfuninni á neðstu hæð rekumst við á Sigþrúði Loftsdóttur iðjuþjálfa sem er sérfræðingur í hjálpartækjum, hún sýnir okkur meðal annars ótrúlega hjólastóla sem hægt er að stjórna með augunum einum ef þörfin krefur. „Möguleikarnir til hjálpar eru alltaf að aukast með fullkomnari tækni og árangurinn er oft ótrúlegur,“ segir hún.

Ída Braga Ómarsdóttir segir sjúkraþjálfunina vel tækjum búna, þökk sé Lions-klúbbnum Nirði og fleirum.
Í vinnustofunni er margs konar iðja í gangi, mósaíkvinna, viðgerð á dúkkuvöggu úr tágum og við sjáum trönurnar hennar Eddu Heiðrúnar en hún er ekki við þær þessa stundina. „Hér er verið að þjálfa fínhreyfingar og samhæfingu og oft eru stórir sigrar unnir í þessari stofu,“ segir Sigríður.

 „Það er stórkostlegt þegar tekst að virkja þumalputta sem áður var óstarfhæfur og einstaklingur getur gripið um tannbursta og burstað tennurnar sjálfur.“

Um 80 manns koma í tækjasalinn á hverjum degi og eitt þeirra tækja sem vel er nýtt er göngubrettið.
 Við endann á vinnustofunni er fullkomið eldhús. „Iðjuþjálfunin felst í að koma fólki út í lífið og það þarf að geta bjargað sér, meðal annars í eldhúsinu,“ útskýrir Sigríður. „Hér geta líka þrír til fjórir eldað hádegismat saman, sér til ánægju og uppbyggingar í stað þess að borða alltaf í mötuneytinu.“

Eitt af því sem skiptir máli í að efla hreyfingu er hugsunin um hana, að sögn iðjuþjálfans. Nýjar rannsóknir benda til að ímyndunaraflið virki við enduhæfingu.
Í sjúkraþjálfuninni er verið að þjálfa fólk bæði á bekkjum og í tækjum. Ida Braga Ómarsdóttir er þar hæstráðandi. „Við erum ágætlega sett með tækjabúnað og það er mest að þakka Lions-klúbbnum Nirði og fleiri góðgerðarsamtökum,“ segir hún. Bætir við að um 80 manns nýti sér tækin á hverjum degi, fyrst og fremst þeir sem eru á dag- eða göngudeild en einnig komi fólk sem hefur fengið heilablóðfall eða er mænuskaðað, utan úr bæ. „Svo erum við tiltölulega nýbyrjuð að þjálfa þá sem eru með gervifætur. Þeir koma klukkan átta á morgnana meðan aðrir í húsinu eru að komast í gang. Við reynum að nýta allar stundir.“

Hér er verið að þjálfa lamaða hönd.
Allir geta sagt sitt

Kona á leið úr æfingum leggur orð í belg en vill ekki láta nafns síns getið. „Þetta er góður staður sem er alveg búinn að bjarga mér bæði andlega og líkamlega og ég er ánægð með að starfsfólkið hér skyldi vera heiðrað. Þetta er úrvalsfólk og það eru unnin kraftaverk hér. Maður sér fólk spretta upp. Ég er ekki besta dæmið um það, margir eru betri.“

Við kíkjum aðeins til sálfræðingsins, Svanhvítar Björgvinsdóttur, sem fæst við að bjarga andlegri heilsu sjúklinga. Hún er upptekin en sendir okkur bros.

Talmeinafræðingurinn Elísabet Arnardóttir aðstoðar fólk sem á við mál- og kyngingarörðugleika að stríða. Sumir sjúklingar þurfa að læra að tala upp á nýtt, eftir heilablóðfall.
„Hér er teymisvinnan stór þáttur,“ segir Sigríður. „Sjúklingurinn getur fengið aðstoð hjá teymi læknis, hjúkrunarfræðings, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, sálfræðings, taugasálfræðings, félagsráðgjafa og talmeinafræðings ef hann þarf. Teymið stendur á bak við allar ákvarðanir en markmiðin eru alltaf sett með einstaklingnum þannig að allt byggist á samvinnu.“ Hún segir marga fundi haldna innanhúss en þeir séu hafðir stuttir. „Fókusinn er alltaf á að vera markviss í okkar vinnu og hafa tímann með sjúklingnum sem mestan.“

Stór hluti þess hóps sem sækir vatnsleikfimina á Grensás kemur utan úr bæ en aðgengi að sundlauginni er þannig að það hentar hjólastólsbundnum.
Á 2. hæð hittum við Pál Ingvarsson sérfræðilækni sem starfað hafði í Gautaborg á mænuskaðadeild og taugadeild til skiptis í 20 ár áður en hann kom heim. Hann kveðst afar ánægður með vinnustaðinn.

„Hér er skemmtilega hreinskilin stemning, allir vinna saman og allir geta sagt sitt. Einstaka sinnum erum við sammála um að vera ósammála en oftast komumst við að niðurstöðu um hver sé besta leiðin fyrir sjúklinginn, þessi teymisvinna er mjög opin, lifandi og virk og það hjálpar okkur alveg gríðarlega. „Svo látum við Grensásgaldurinn virka,“ segjum við stundum því hér gerast ótrúlegustu hlutir, enginn veit hvernig!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×