Erlent

Búist við að fjöldi fylgist með myndbandi af Madeleine

Búist er við því að hálfur milljarður áhorfenda muni fylgjast með þegar myndband með bresku telpunni Madeleine McCann verður sýnt í beinni útsendingu á meðan úrslitaleikur ensku bikarkeppninnnar verður leikinn í dag.

Foreldrar Madeleine hafa ítrekað lýst því yfir að þau trúi því að dóttir þeirra finnist á lífi. Rúmar tvær vikur eru síðan að hún hvarf úr íbúð sem fjölskyldan dvaldist í á sumarleyfisstað á Portúgal. Sett hefur verið upp sérstök heimasíða tileinkuð leitinni að stúlkunni og hafa um 75 milljónir manna heimsótt síðuna.

Fréttir af hvarfi stúlkunnar hafa slegið marga og myndir af henni birst í fjölmiðlum um allan heim. Foreldrar stúlkunnar vonast til að myndbandið sem birt verður í dag verði til þess að einhver sem hafi upplýsingar, sem tengjast hvarfinu, snúi sér til lögreglunnar.

Úrslitaleikur ensku bikardeildarinnar hefst klukkan tvö að íslenskum tíma. Leikmenn liðanna tveggja, Manchester United og Chelsea, hafa undanfarið birst í fjölmiðlum og beðið fólk að aðstoða við leitina.

Lögreglan handtók karlmann í tengslum við hvarfið en honum var sleppt aftur skömmu síðar þar sem ekki voru nægar vísbendingar til að ákæra hann. Leit að stúlkunni hefur lítið gengið og lögreglan virðist vera litlu nær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×