Vísir hefur heimildir fyrir því að ein slík upptaka hafi til að mynda ráðið úrslitum við rannsókn nýlegs áreksturs. Ökumaður í órétti, sem ekið hafði á aðra bifreið á móti rauðu ljósi, stakk af frá slysstað á Grensásvegi án þess að vitni næðu bílnúmeri hans. Það var svo ekki fyrr en að maður, sem náð hafði árekstrinum á bílamyndavél sína, setti sig í samband við lögregluna og afhenti henni upptökuna sem málið leystist.
Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögreguþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að það sé að verða æ algengara að sambærilegar upptökur séu notaðar við rannsókn mála. Myndavélar sem þessar séu algengar víða um heim, ekki síst í Austur-Evrópu og Rússlandi, þaðan sem reglulega berast upptökur af atvikum í umferðinni.
Eitt slíkt myndband frá Íslandi rataði til að mynda í fréttirnir í vikunni, í tengslum við mikilvægi vegriða á þjóðvegum landsins.
Ómar rekur auknar vinsældir vélanna á Íslandi til þeirrar staðreyndar að þær teljist nokkuð ódýrar ásamt því að vélarnar fáist víða. Að sama skapi kunni þær að bæta réttarstöðu fólks lendi það í óhappi í umferðinni. Ómar hvetur eigendur slíkra myndavéla til að setja sig í sambandi við lögreglu, telji þeir sig hafa fangað eitthvað á filmu sem aðstoðað gæti við rannsókn mála. Þeir þurfi ekki að óttast að myndböndin fari í dreifingu, enda muni lögreglan ekki láta öðrum þau í té.
Hér að neðan má sjá fyrrnefnda upptöku úr bílamyndavél sem fór á flug í vikunni.