Sport

Djokovic tapaði sínum fyrsta leik eftir sigurinn á Wimbledon

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Djokovic varð að játa sig sigraðan í dag
Djokovic varð að játa sig sigraðan í dag
Serbinn Novak Djokovic spilaði í gær sinn fyrsta tennisleik síðan hann hafði sigur í einliðsleik karla á Wimbledon fyrir viku. Tapið kom í Davis Cup viðureign Serba gegn Svíum í Halmstad í gær.

Djokovic beið lægri hlut í tvíliðaleik þar sem hann spilaði með Nenad Zimonjic sem er í 3. sæti heimslistans í tvíliðaleik. Serbarnir töpuðu gegn Simon Aspelin og Robert Lindstedt 6-4, 7-6 og 7-5.

„Þetta er ótrúlegt, leikur sem mann dreymir um að vinna.  Við mættum einum besta tvíliðaleiksspilara  heims og besta einliðaleiksspilara heimsins og ég tel þetta vera besta leik okkar," sagði Lindstedt við sænska fjölmiðla.

„Þetta er ekki umhverfi sem Djokovic er vanur. Hefði ég mætt honum í einliðaleik hefði ég eflaust unnið fáar lotur. En við erum í skýjunum að hafa spilað svona vel og unnið svo sterkt teymi," bætti Lindstedt við.

Serbar vonast eftir því að Djokovic geti spilað einliðaleik í dag en Serbar leiða 2-1 þegar tveimur viðureignum er ólokið. Djokovic hefur glímt við meiðsli á hné undanfarið.

„Við erum 2-1 yfir fyrir lokadaginn. Það er það mikilvægasta. Á morgun ætlum við að klára dæmið," sagði Djokovic.

Argentína sló út Kazakhstan 5-0 í vikunni og Frakkar eru 3-0 yfir gegn Þjóðverjum og komnir í undanúrslit. Þá eru Spánverjar 2-0 yfir gegn Bandaríkjunum.

Undanúrslitin í Davis Cup fara fram í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×