Erlent

NASA segir að James Webb-sjónaukinn sé á áætlun

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá prófunum á James Webb-sjónaukanum árið 2016.
Frá prófunum á James Webb-sjónaukanum árið 2016. NASA/Chris Gunn

James Webb-geimsjónaukanum (JWST) verður skotið út í geim í mars á næsta ári þrátt fyrir tafir og kostnaðarauka, að sögn bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Útlit er fyrir að kostnaður við sjónaukann muni nema um 9,7 milljörðum dollara, jafnvirði tæpra 1.200 milljarða íslenskra króna.

Sjónaukinn hefur lengi verið á teikniborðinu og skoti hans hefur verið margfrestað og hönnun hans breytt. Um skeið stóð til að skjóta JWST á loft árið 2018 en í júníþað ár var ákveðið að fresta skotinu til snemma árs 2021 þar sem ekki hafði náðst að ljúka prófunum og undirbúningi. Sjónaukinn er samstarfsverkefni bandarísku, evrópsku og kanadísku geimstofnanna.

Á fundi Stjörnufræðisambands Bandaríkjanna um helgina lögðu yfirmenn NASA áherslu á að sjónaukinn væri á áætlun, að sögn Space.com. Á þessu ári standi til að prófa hvort að sjónaukinn stenst titringinn sem fylgir geimskotinu og frekari tilraunir með að opna hann.

James Webb verður stærsti og öflugasti geimsjónaukinn í sögunni þegar hann verður tekinn í notkun og á hann að taka við af Hubble-geimsjónaukanum. Spegill JWST er 6,5 metrar að þvermál en til samanburðar er spegill Hubble er 2,4 metra breiður. Sjónaukinn á meðal annars að skyggnast lengra aftur að upphafi alheimsins en hægt hefur verið fram að þessu.

Ólíkt Hubble-geimsjónaukanum verður JWST ekki á braut um jörðu heldur í svonefndum Lagrange-punkti 2 í um 1,5 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðinni í áttina frá sólu. Því verður engin leið að gera lagfæringar á sjónaukanum þegar hann er einu sinni kominn á sinn stað.

Lagrange-punktur 2 er staður í geimnum þar sem þyngdarkraftar jarðar og sólar jafnast út. Þegar James Webb verður kominn þangað fylgir hann eftir árlegri sporbraut jarðar í kringum sólina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×