Hin 18 ára gamla Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Íslandsmethafi í 100 og 200 metra hlaupi, segir það henta vel fyrir sig að Ólympíuleikunum í Tókýó hafi verið frestað um eitt ár eða til sumarsins 2021.
Draumur Guðbjargar var og er að komast á leikana og vonin er meiri nú þegar þeim hefur verið frestað, segir hún í viðtali við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson á RÚV:
„Já, ég held það. Ég þurfti að sleppa Norðurlandamótinu innanhúss út af meiðslum og það mót var mjög mikilvægt stigamót fyrir Ólympíuleikana. Ég var því eiginlega búin að segja bæ við Ólympíuleikana. En svo var þeim frestað og ég held að það virki mjög vel fyrir mig,“ segir Guðbjörg við RÚV. Hún tók sér hlé frá keppni eftir Reykjavíkurleikana í vetur þar sem hún var með beinbjúg í rist sem hafði truflað hana frá síðasta sumri.
Guðbjörg þarf að safna stigum á mótum á þessu ári og því næsta til að styrkja stöðu sína á heimslista en út frá honum verður farið þegar sætum á Ólympíuleikunum verður úthlutað.
„Ég og þjálfarinn minn þurfum í sameiningu að reyna að finna gott æfingaplan til að reyna að ná stigamótum inni og líka vera í góðu formi fyrir sumarið, og halda mér í formi í október. Þetta er því svolítið púsluspil,“ segir Guðbjörg.