Erlent

Navalní kvartar undan rússneskum stjórnvöldum til Mannréttindadómstólsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Navalní segir að yfirvöld hafi tæmt og fryst bankareikninga hans og náinna ætttingja fyrr í vikunni. Hann hefur ítrekað sætt þvingunum yfirvalda sem hann segir ætla að stöðva stjórnmálabaráttu sína.
Navalní segir að yfirvöld hafi tæmt og fryst bankareikninga hans og náinna ætttingja fyrr í vikunni. Hann hefur ítrekað sætt þvingunum yfirvalda sem hann segir ætla að stöðva stjórnmálabaráttu sína. Vísir/EPA

Alexei Navalní, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar, lagði fram kvörtun til Mannréttindadómstóls Evrópu í dag vegna peningaþvættisrannsóknar sem rússnesk stjórnvöld hófu á honum. Hann heldur því fram að rannsókninni sé ætla að stöðva stjórnmálastarf hans.

Rússnesk yfirvöld hafa ítrekað fangelsað Navalní fyrir að skipuleggja mótmæli undnafarin ár. Honum var jafnframt bannað að bjóða sig fram til forseta árið 2018 vegna dóms sem hann hlaut í fjársvikamáli sem Navalní hefur lýst sem pólitískum.

Peningaþvættisrannsóknin sem beinist að samtökum Navalní hófst eftir að hann hvatti til mótmæla í ágúst. Mótmælin urðu þau stærstu um árabil á tímabili í fyrra. Navalní segir að yfirvöld hafi fryst og tæmt bankareikninga hans og náinna ættingja á þriðjudag, að því er segir í frétt Reuters.

Sjá einnig: Rússnesk stjórnvöld brutu á leiðtoga stjórnarandstöðunnar

„Ég hef ítrekað sætt ofsóknum rússneskra yfirvalda vegna stjórnmálastarfa minna,“ sagði Navalní vegna kvörtunarinnar sem hann og nokkrir bandamenn hans hafa sent inn til Mannréttindadómstólsins.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að stjórnvöld í Kreml hefðu brotið réttindi Navalní með því að hneppa hann í stofufangelsi og beita hann öðrum þvingunum árið 2014 með það fyrir augum að takmarka stjórnmálabaráttu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×