Innlent

Icelandair sækir sau­tján tonn af lækninga­vörum til Kína

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikill viðbúnaður er á Landspítalanum vegna kórónuveirunnar.
Mikill viðbúnaður er á Landspítalanum vegna kórónuveirunnar. visir/vilhelm

Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa samið við Icelandair um að sækja pöntun af hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsmenn til Kína. Búnaðurinn var pantaður fyrir nokkru síðan, þegar ljóst var hvað í stefndi vegna COVID-19 heimsfaraldursins, segir í frétt á vef stjórnarráðsins. 

Mbl.is greinir frá því að flugvél Icelandair fljúgi til Sj­ang­hæ í fyrra­málið þar sem hún muni sækja sautján tonn af lækn­inga­vör­um. Flug­vél­in stopp­ar í borg­inni í fjór­ar klukku­stund­ir og fer svo beint til baka til Íslands. 

Fram kom í máli Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns á upplýsingafundinum í dag að Landspítalinn muni halda utan um þennan lager og dreifa honum ef á þarf að halda. 

„Enginn skortur hefur verið hér á landi á hlífðarbúnaði, en með þessu verkefni er verið að tryggja ábyrga birgðastöðu á þessum mikilvægu vörum fyrir sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir hér á landi meðan á faraldrinum stendur,“ er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í frétt stjórnarráðsins.

Um er að ræða samvinnuverkefni heilbrigðisyfirvalda, almannavarna, Icelandair og utanríkisráðuneytisins. 

Þá er sendiráð Íslands í Kína sagt hafa unnið að því í samráði við yfirvöld hér að festa kaup á vörunum og tryggja leyfi fyrir útflutningi. Sömuleiðis hafi sendiráð Kína á Íslandi veitt aðstoð við innflutninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×