Fjöldi látinna vegna kórónuveirufaraldursins tók stökk í Frakklandi í dag þegar tilkynnt var um andlát 1417 sjúklinga. Hafa því 10.328 manns látið lífið í Frakklandi vegna veirunnar. Sky greinir frá.
Alls hafa 110.049 manns smitast af veirunni og er það eingöngu í Bandaríkjunum, Ítalíu og á Spáni þar sem fleiri tilfelli veirunnar hafa greinst. Heildarfjöldi tilfella á heimsvísu er nú rúmlega 1,4 milljón. 81 þúsund manns hafa látið lífið.
Gripið hefur verið til mikilla aðgerða í Frakklandi en skólastarfi hefur verið aflýst og stendur útgöngubann yfir til 15. apríl hið minnsta. Fyrsta tilfelli veirunnar í Frakklandi greindist 24. janúar síðastliðinn.