Líklegt þykir að Íslandsmótum í knattspyrnu verði frestað enn frekar en reikna má með tilkynningu þess efnis frá KSÍ um miðja viku.
Eins og kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á blaðamannafundi almannavarna í gær mun samkomubanni vera aflétt í hægum skrefum auk þess sem takmarkanir verði á stórum samkomum í sumar.
Vísir hafði samband við Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, eins og greint var frá í gær. Þar kom fram að sambandið myndi funda með almannavörnum í vikunni.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, að allar líkur væru á því að mótum KSÍ yrði frestað frekar en stefnt hafði verið að því að byrja um miðjan maí.
„Jú við erum að horfa á að því verði frestað lengur en fram í miðjan maí. Það er næsta víst eins og Bjarni Fel segir. Ég sé fram á frekari frestun,“ segir Guðni.
„Auðvitað vonast ég til að við getum haldið mótið í sumar, bæði í yngri flokkum og í meistaraflokkum. Það er kannski ekki tímabært að tjá sig um það núna. Við fáum betri mynd af þessu á fundi með yfirvöldum í næstu viku. Þá vitum við meira varðandi afléttingu samkomubannsins og það skýrir okkar stöðu hvað framhaldið varðar, bæði með æfingar og keppni,“ segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ.