Fótbolti

„Því lengur sem þú sérð ekki ein­hvern sem þú kannt vel við því erfiðara verður það“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. Getty/MB Media

Það er ljóst að hléið á Englandi vegna kórónuveirunnar er farið að hafa áhrif á knattspyrnumenn þar í landi sem og knattspyrnustjóra. Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, er byrjaður að sakna lærisveina sinna og rúmlega það.

Klopp hefur þó séð sína menn í gegnum samskiptaforritið Zoom en þar hafa leikmennirnir æft „saman“, hver í sínu horni. Óvíst er hvenær sá þýski fær að sjá sína menn aftur en það eru liðnar fjórar vikur síðan þeir æfðu síðast saman á Melwood, æfingasvæði Liverpool.

„Þú vilt vera með þeim og vera í kringum þá. Þú vilt vera nær þeim en þú getur verið núna. Þessar myndbandsæfingar er það næsta sem við getum verið saman, fyrir utan skilaboð sem við skiptumst á,“ sagði Klopp.

„Svo mér líkar mjög vel við þessar æfingar. Þetta verður erfiðara því lengur sem þetta varir. Ég skil stöðuna 100% en því lengur sem þú sérð ekki einhvern sem þú kannt vel við því erfiðara verður það. Það er staðan sem við erum í núna.“

Liverpool var með 25 stiga forskot á toppi deildarinnar þegar deildin var sett á ís en óvíst er hvenær deildin fer aftur af stað og með hvaða móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×